Með söknuð í hjarta kveð ég elsku mág minn hann Sigga. Hann og systir mín byrjuðu að vera saman ung að árum þannig að ég man lítið eftir mér áður en Siggi kom í fjölskylduna. Siggi varð strax einn af fjölskyldunni, enda hvers manns hugljúfi, hjálpsamur og skemmtilegur. Ég eignaðist skemmtilegan „stóra bróður“ sem hafði ekkert á móti því hlutverki og alltaf til í að spjalla og hafa mig með.
Þegar Billa fór til Reykjavíkur í hjúkrunarfræði var Siggi eftir á Akureyri í einn vetur áður en hann fór í Tækniskólann. Sennilega hefur hann verið frekar einmanna þennan vetur meðan kærastan var langt í burtu, allavega átti hann allan tímann í heiminum til að spila og púsla með mér. Þennan vetur lærði ég heldur betur landafræði Íslands því að við kepptum í því að púsla Íslandskortið aftur og aftur á sem stystum tíma. Á þessum árum var markmiðið að verða arkitekt og grunnteikningar húsa því vinsælla viðfangsefni heldur en að teikna prinsessur. Siggi kom þar sterkur inn og kenndi mér að nota reglustiku með mælikvarða til að teikna í réttum hlutföllum. Þannig að það var ekki skrítið að Siggi sló alveg í gegn hjá mér.
Fæðing Stínu og svo síðar Erlu var mér mikið gleðiefni. Þegar Stína var ársgömul fór ég suður til að passa, ekki alveg sátt, vildi vera með vinkonunum. En suður fór ég og átti ljómandi gott sumar hjá Stínu, Billu og Sigga, þroskaðist heilmikið og lærði margt. Billa var oft á kvöldvöktum og þá kom í hlut okkar Sigga að sjá um matinn og koma Stínu í rúmið. Ég tók að mér sönginn en Siggi frágang í eldhúsinu. Síðan plataði hann mig æði oft til að skreppa í ísbúðina í Álfheimum og kaupa handa sér uppáhalds sjeikinn með ananasbragði og ég fékk þá ís með dýfu. Stundum held ég að systur minni hafi nú ekki þótt aðkoman að litlu íbúðinni í Glaðheimum neitt sérstök þegar hún kom þreytt heim eftir kvöldvaktir, ekki mjög húslegt fólk sem sá um heimilið.
Ekki þótti mér tónlistarsmekkur mágs míns merkilegur á þessum árum. Í græna Bronconum var 8 rása kassettutæki og ein kassetta með Simon og Garfunkel. Eftir bílferð í þeim græna frá Reykjavík til Akureyrar hef ég aldrei hlustað ótilneydd á Bridge over troubled water. En til að sanna að hann þekkti eitthvað meira en þá félaga tók hann að sér að kaupa jólagjafir handa mér og kynnti fyrir mér tónlist sem ég hafði aldrei heyrt um (sennilega hefur systir mín verið mjög hissa á þessu framtaki hans). Meðal jólagjafa þessi ár var plata með Mahalia Jackson og önnur með Genesis, vægast sagt ólík tónlist. En ég kolféll fyrir Genesis og spilaði oft og hátt, til lítillar ánægju fyrir aðdáendur Karlakórsins Vísis sem samnýttu plötuspilarinn með mér.
Siggi, Billa og Stína fluttu norður 1974 og Erla fæddist svo 1975. Okkur þótti afskaplega gott að fá þau nær okkur og ég var hálfgerður heimalingur hjá þeim þar til ég fór suður í háskólann. Passaði stelpurnar, ræddi öll vandamál lífsins við Billu og þótti gott að geta leitað til Sigga með stærðfræðina. Billa og Siggi voru svo sannarlega til staðar fyrir mig á unglingsárunum, alveg ómetanlegt að eiga slíkt bakland sem hægt var að treysta fyrir öllu.
Fljótlega eftir að þau komu norður var farið að huga að byggingu sumarbústaðar á uppáhaldsstað Sigga í Fnjóskadalnum, í landi fjölskyldu hans á Hróarstöðum. Þar var Siggi í essinu sínu og hann og pabbi hlupu um móana með mælitæki til finna rétta staðinn. Löngu áður en fyrsta spýtan var negld var farið að fara í dalinn góða, stundum með tjald en alltaf nesti og kaffi. Á veturna var gjarna farið og gengið á gönguskíðum eða verið að renna sér á þotu. Ekki var flanað að einu við bygginguna enda held ég að ferlið að byggja og finna lausnir hafi verið honum jafnmikilvægt og að hafa bústaðinn tilbúinn. Fljótlega var líka farið að huga að ræktun landsins og þar fékk ég tækifæri til að leggja mitt af mörkum og potaði ófáum plöntum niður í móana sem í dag eru orðin margra metra há tré. Fjölskyldan á margar góðar minningar úr bústaðnum og þar voru Siggi og Billa svo sannarlega góðir gestgjafar.
Siggi var svo lánsamur að kynnast Kollu eftir að systir mín féll frá allt of ung. Kolla hefur verið honum afskaplega góður félagi og þau hafa verið dugleg að ferðast innanlands sem utan. Fjölskylda Kollu hefur líka reynst Sigga einstaklega vel og ég veit að þau standa vel við bakið á Kollu á þessum erfiðu tímum.
Elsku Stína, Erla, Jakob, Sigurður Yngvi, Kristófer Anton og Kolla. Sorgin er mikil en minningin um góðan og traustan mann lifir með okkur.
Takk fyrir allt elsku Siggi.
Elín Lýðsdóttir