Fara í efni
Minningargreinar

Sigurður Guðmundsson

Elsku besti Siggi bróðir.

Lífið er eins og tímaglas; kornin sem við fáum úthlutuð þegar við mætum inn í þennan heim eru hulin. Óvissan um hvað mörg sandkorn við fáum er stundum yfirþyrmandi og ósanngjörn. Elsku Siggi, ég er óhuggandi yfir fráfalli þínu sem kom allt of snemma og enginn var fyrirvarinn. Hjörtun okkar eru mölbrotin af sorg. Hvernig get ég kvatt litla stóra bróður minn?

Það var enginn fyndnari, skemmtilegri, hjálpsamari, ævintýragjarnari en þú. Þótt við gætum rifist eins og hundur og köttur þótti okkur alltaf vænt hvoru um annað og hjálpuðum hvort öðru. Vorum stolt hvort af öðru. Enginn var eins og þú, enginn verður eins og þú. Það eru 52 dagar síðan þú kvaddir og allar tilfinningar í bókinni hafa runnið í gegnum mig þessa 52 löngu, leiðinlegu daga. Sorgin liggur eins og mara á maganum yfir örinu eftir eitt af prakkarastrikunum þínum sem fór ekki alveg eins og þú ætlaðir þér. Örið sem ég ber með stolti í dag. Hver á nú að stökkva út úr myrkrinu og hrekkja mig?

Við komum úr stórum systkinahópi og erum mjög náin. Hversu heppin erum við eiginlega að koma úr svona stórum hópi af yndislegu fólki. Við rífumst, grátum, elskum og syrgjum saman á þessum erfiðu tímum. Við rifjum upp allar sögurnar í kringum þig, hlæjum og grátum til skiptis. Þú upplifðir meira en við öll hin til samans. Þú lifðir hratt og það var eins og þú værir að flýta þér að koma við allt sem heimurinn hafði upp á að bjóða og gerðir það með látum og skemmtun. Það var alltaf gaman í kringum þig, ég er lík þér á svo margan hátt að það hræðir mig stundum. Að alast upp í svona stórum og sterkum systkinahópi er svo mikil blessun, sjö bræður og systur á stóru heimili í Reynilundi með full hús af börnum í kringum okkur til að leika við og nánast úti í sveit, með Dalla, kindurnar og hestana í bakgarðinum.

Hversu geggjuð var æskan okkar, prakkarastrikin, leikirnir, lætin og vinskapurinn sem fylgir okkur enn í dag. Þú kenndir mér svo margt; hvernig á að halda uppi fjörinu, koma fólki til að brosa, koma fólki til að gráta. Kenndir mér að rífa kjaft og láta ekki vaða yfir mig, allra síst þig. Okkar síðasta knús var hér heima því ég bað þig að koma og sjá málverkin mín og þú misstir kjálkann á gólfið og ég vissi að þú varst stoltur af mér. Ég hélt utan um þig og ég sagðist elska þig og sagði þér að fara varlega í Afríkunni. Þú segir „ég elska þig líka“ og enn heyri ég það í vinstra eyrað.

Þú skilur eftir þig full hjörtu af sorg en þú skilur líka eftir þig heilar hallir af gleði og skemmtun, fullt af góðum minningum um samverustundir með börnunum, vinum, foreldrum, frændsystkinum og systkinum. Öll eigum við ógleymanlegar sögur með þér elsku besti Siggi minn, enda bestur í öllu auðvitað. Elsku fallegi Siggi bróðir, ég held fast utan um börnin þín og geri mitt allra besta til að vera til staðar fyrir þau. Veit að þú myndir gera það sama fyrir mig. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og mína, elska þig til eilífðarnóns. 

Þín litla systir,

Nanna.

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01