Sigurður Guðmundsson
Elsku fallegi stóri bróðir og vinur.
Nú ert þú farinn á vit nýrra ævintýra og skilur eftir þig stórt skarð sem aldrei verður fyllt.
Penninn er þungur, erfitt og ósanngjarnt að þurfa að skrifa þessi orð alltof snemma. Það er alveg óendanlega sárt að þú hafir farið svona snemma frá okkur, það var svo margt sem þú áttir eftir að gera og þú varst svo spenntur fyrir komandi tímum í Sambíu.
Margir eiga sér drauma en uppfylla þá aldrei. Það er ekki hægt að segja það um þig. Þú varst hugmyndaríkur og bjartsýnn og framkvæmdir hluti sem flest okkar dreymir aðeins um. Þú varst góður vinur og milli okkar ríkti kær vinátta og traust. Ég mun sakna samtalanna okkar um allt og ekkert, grettumyndanna, hlátursins og hrekkjanna þinna sem gerði líf okkar svo skemmtilegt. Þú varst svo skemmtilegur og fyndinn, ótrúlega réttsýnn og með svo stórt hjarta en á sama tíma svo lítið hjarta, máttir ekkert aumt sjá. Þótt þú værir ekki spar á stóru orðin, gerðirðu svo mörg góðverk án þess að krefjast neins í staðinn. Þú þurftir ekki að auglýsa það fyrir umheiminum hvað þú værir góð sál. Þú gerðir frekar hlutina í skjóli nætur og þú einn vissir hversu góðan mann þú hafðir að geyma. Þú varst hreinn og beinn og ekkert fyrir kjaftæði. Sagðir hlutina eins og þeir voru en leyfðir öllum að hafa sínar skoðanir. Þú hafðir þínar og hikaðir ekki við að bera þær á torg. Ef þú skaust þig í fótinn, hikaðirðu heldur ekki við að taka það til baka ef þú hafðir rangt fyrir þér, sem var auðvitað afar sjaldan. Ég veit ekki hvað ég sagði oft við þig: Skrifaðu bók, þú ert svo frábær penni. Skrif þín vöktu athygli og komust oftar en ekki í blöðin, enda varstu með frábært viðhorf til lífsins, þótt það hafi ekki verið þér alltaf auðvelt.
Þér leið oftast vel en þú áttir líka erfiðar stundir sem ég veit að tóku af þér toll. Það voru ekki allir sem fengu að koma nálægt þér, en milli okkar ríkti mikil vinátta, ég átti það til að skammast í þér og ég veit að þú hlustaðir, alveg eins og ég hlustaði á þig. Þú vildir alltaf bæta þig og ég vildi óska að ég gæti sagt þér núna hve vænt mér þótti um þig. Veit að þú veist það en mig langar bara svo að segja þér það einu sinni enn. Faðma þig og segja þér hvað mér finnst þú frábær, skemmtilegur, fyndinn og fallegur, sem þú vissir svo sem alveg. Sendir mér reglulega sjálfsmyndir þar sem þér fannst þú sjúklega sætur, enda varstu það, alltaf flottur í tauinu, enginn karlmaður átti jafn mörg skópör og þú, eða föt ef því er að skipta.
Þú varst mikill safnari og ferðaðist um heiminn eins og hann væri þinn. Hann var þinn leikvöllur og þú lést ekkert stoppa þig í að upplifa eitthvað nýtt. Hvert sem þú komst naustu þess að vera til, en þú naust þess líka að vera einn með sjálfum þér og horfa á heilu þáttaraðirnar. Vildi að við gætum horft saman á næstu Yellowstone-seríu, veit að þú verður þarna með mér.
Börnin þín voru augasteinarnir þínir og þú varst svo stoltur af þeim. Svo varstu svo ástfanginn af elsku Njavwa og lífi ykkar í Sambíu. Svo margt sem þú áttir eftir að gera þótt þú værir búinn að gera mun meira en flestir sem lifa aðeins í 53 ár. Þegar þú komst síðast til Íslands, þá hringdirðu í mig og sagðist koma eftir tvo daga, hvort þú fengir ekki gistingu eins og alltaf. Að sjálfsögðu var það í boði, en nokkrum sekúndum seinna labbaðirðu inn, þurftir bara að gera smá grín. Mér þykir svo vænt um þessa minningu.
Krakkarnir mínir eiga eftir að sakna Sigga frænda, skemmtilegasti frændinn sem kenndi þeim að veiða, fór með þau í gullfiskatjörn og keypti handa þeim flottasta dótið og gaf alltaf bestu gjafirnar. Ekki var það verra að þú varst alltaf með seðla í vasanum, til að gleðja lítil hjörtu. Stóru börnin okkar eru góðir vinir og litlu strákarnir mínir, sem aldrei gátu setið kyrrir, þeir eru svo líkir þér, uppátækjasamir og skemmtilegir. Þú dýrkaðir þá, enda sástu sjálfan þig í þeim. Gleymi því seint þegar þú skildir ekki af hverju þú ættir ekki að halda á yngsta syni mínum undir skírn. Ég hefði dregið þig suður að óþörfu, en það kom fljótt í ljós að þarna eignaðist þú nafna, lítinn Sigga. Klökkur og stoltur varstu, elsku bróðir.
Vindur er búinn að vera hérna hjá mér og ég er svo glöð að ég get fengið að hafa hann, rölta með elsku kraftmikla gaurinn þinn sem er alltaf með slímugan bolta fyrir mann að kasta, gott fyrir okkur klígjugjörnu vinina. Ég kúgaðist svo um daginn að ég ældi næstum, hló svo eftir það, því þú hefðir gert nákvæmlega það sama. Þú varst mér svo góður. Þegar ég var unglingur á vergangi, þá hýstirðu mig, hugsaðir um mig og hentir í mig þúsundköllum. Alltaf til staðar fyrir litlu systur, í blíðu og stríðu.
Ég veit að þú treystir Óla til að sjá um mig eftir þinn dag. Milli ykkar var góð vinátta og þið höfðuð gaman af veiðiferðunum ykkar og að tala um gráa fiðringinn ykkar – mótorhjól.
Þú sagðir við mig í síðustu afmæliskveðju að þú myndir alltaf grípa mig ef eitthvað bjátaði á, ég finn að þú ert enn til staðar og veit að þú munt aldrei svíkja það loforð og grípa mig, alltaf. Það er svo margt sem ég vil segja en sumt af því geymi ég fyrir mig, annars er það efni í að minnsta kosti heila bók.
Ég lofa að halda vel utan um ástina þína, Njavwa, sólargeislana þína, stolt og yndi, Kolfinnu, Guðmund, Sjöfn og Óðin. Ég verð alltaf til staðar fyrir börnin þín eins og þau væru mín eigin.
Farðu vel elsku uppáhalds stóri bróðir minn, kæri vinur minn. Hjarta mitt springur úr sorg en ég veit þú verður þarna til að grípa mig, alltaf.
Þín litla systir,
Ragnhildur Rós.