Sigurður Friðriksson
Það er nokkuð ljóst að enginn er eilífur fyrst þú ert kominn í sumarlandið elsku afi, þó þú hafir vissulega barist fram á lokastund. Meiri jaxl og dugnaðarfork hef ég ekki enn hitt. Klettur okkur hinna. Ég man hvað mér fannst flott að afi minn væri skipstjóri. Enda er ég viss um að þín hafi beðið skip í sumarlandinu sem þú siglir nú eins og þú gerðir alla þína tíð með miklum sóma. Mér fannst alltaf svo magnað hvað þú vissir margt og mikið enda hafðirðu svör á reiðum höndum við hvaðeina. Í seinni tíð var ég glöð yfir því að þú leitaðir til mín og treystir mér fyrir því aðstoða þig við ýmsa hluti sem einkenna tækniöldina þó þú hafir að sjálfsögðu ekki látið deigan síga og næðir oftar en ekki að afgreiða hlutina sjálfur. Mín var svo sannarlega ánægjan og heiðurinn að fá loksins að aðstoða þig eins og þú aðstoðaðir mig áður fyrr. Mikið sem strákarnir mínir voru heppnir að kynnast þér og munum við öll segja yngsta stubb frá afa Sigga langa. Við pössum ömmu vel eins þú hefur alltaf gert. Söknuðurinn og sorgin er mikil en við yljum okkur við allar góðu minningarnar. Hvíldu í friði elsku afi Siggi.
Pála, Sveinn (Svenni) og strákarnir