Fara í efni
Minningargreinar

Sigurður Bjarklind

Ég minnist vinar míns Sigurðar Bjarklind með mikilli hlýju; þó að við umgengust ekki utan vinnu var vináttan sterkur þráður. Hann starfaði við MA í 40 ár og kenndi allt til sjötugs, hefði jafnvel kennt lengur ef honum hefði, aldurs vegna, ekki verið skylt að hætta. Kennslan var honum í blóð borin. Hann var kennari af „gamla skólanum“, hélt innblásna fyrirlestra, þéttskrifaði glósur á töfluna en hópavinna nemenda og fundaseta var ekki alveg hans tebolli. En leiftrandi gáfur, stálminni, yfirburðaþekking á námsefninu, sögur og mikil jákvæðni gagnvart nemendum hrifu og hann kveikti löngun margra nemenda til að hefja nám í þeim greinum sem hann kenndi. Goðsagnakenndar sögur lifðu um hann, um stökkið út um glugga á efstu hæð Möðruvalla og fallhlífastökk á Litlu ólympíuleikunum svo eitthvað sé nefnt.

Siggi var tryggasti lesandi vikupistlanna sem ég sendi til starfsfólks MA og sendi mér yfirleitt póst eftir hvern og einn, leiðrétti þá jafnframt innsláttarvillur og gantaðist ef ég hafði gerst sek um klaufalegt orðalag. Hann hafði enda ríka tilfinningu fyrir íslensku máli. Sjálfur var hann hagmæltur og orti skemmtilega bragi, kunni ljóð utan að og var hnyttinn og skemmtilegur í tali. Hann hreifst af lífinu og sendi mér oft ljóð, ljósmyndir eða skemmtilegar sögur sem lífguðu upp á tilveruna.

Orka hans var gríðarleg. Oft dreif hann bekkina sína með sér upp á Ystuvíkurfjall, gleymdi reyndar stundum að nemendur voru fæstir jafn hraðskreiðir og hann og stakk þá suma af á fyrstu metrunum. Fyrir utan kennsluna virtist sem hann væri stöðugt að, hvort sem var í útivist, smíðum eða öðru. Hann tók sjálfur ekki þátt í vor- eða haustferðum með samstarfsfólki en bauð okkur hinsvegar í ævintýralandið sitt í Köldukinn í einni vorferðinni, og sagði stoltur frá endurgerðinni á húsinu, uppbyggingunni og allri ræktuninni á landinu, verklaginn og vinnusamur sem hann var.

Siggi glímdi sannarlega við margt í gegnum tíðina. Hann var töffari á yfirborðinu en mikil tilfinningavera inn við beinið. Hann fór oft sínar eigin leiðir en hann bar alltaf hag nemenda fyrir brjósti, var næmur á líðan þeirra og vildi þeim alltaf hið besta. Árið 2015 kom út blaðið Júbílantinn, í tilefni þess að 25 ár voru liðin frá því MA-hátíðin stóra í Íþróttahöllinni var fyrst haldin. Siggi skrifaði pistil í blaðið þar sem hann rifjaði upp fyrstu skrefin í kennslu og segir svo: „Þetta starf var og er mitt líf og yndi og samskiptin við nemendur MA hafa gefið mér endalausa lífsgleði. Takk fyrir það kæru nemendur hvar sem þið eruð í heiminum stödd.“ Þannig var hugur hans til kennslunnar og nemenda.

Síðustu árin hittumst við helst á horninu við sundlaugina, hann að fara í sund og ég í vinnu, við föðmuðust og göntuðust aðeins. En nú er nokkuð orðið síðan síðast, ég hefði viljað hitta hann einu sinni enn, faðma hann og þakka honum fyrir vináttuna og kærleikann í gegnum tíðina. Og gleðina og stríðnina.

Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir

Sigurður Bjarklind

Jan Eric Jessen skrifar
24. febrúar 2025 | kl. 08:00

Sigurður Bjarklind

Jón Ívar Rafnsson og Karl Ásgrímur Halldórsson skrifa
24. febrúar 2025 | kl. 07:00

Gísli Bragi Hjartarson

Snjólaug Sveinsdóttir skrifar
14. febrúar 2025 | kl. 11:15

Gísli Bragi Hjartarson – lífshlaupið

14. febrúar 2025 | kl. 08:00

Gísli Bragi Hjartarson

Íþróttafélagið Þór skrifar
14. febrúar 2025 | kl. 06:00

Einar Friðrik Malmquist

Þorsteinn Einar Arnórsson, Jakob Tryggvason, Egill Sveinsson og Sigfús Ólafur Helgason skrifa
10. febrúar 2025 | kl. 06:00