Sigurður Bergþórsson
Sigurður Bergþórsson var fæddur 12. september 1956. Hann lést 10. janúar síðastliðinn.
Föstudaginn 10. janúar síðastliðinn sátum við félagarnir í okkar daglega morgunkaffi um borð í Húna II og tókum púlsinn á dagmálunum. Það vakti athygli okkar að Siggi Bergþórs var ekki mættur fyrstur eins og hann var oftast vanur og búinn að hella uppá og gera klárt.
Ástæðan var einföld. Siggi var látinn.
Sigurður hafði orðið bráðkvaddur heima hjá sér nóttina áður aðeins 68 ára að aldri.
Þetta var frétt sem erfitt var að meðtaka. Siggi!
Það var ca. fyrir 8 árum síðan sem Sigurður Bergþórsson gekk til liðs við Hollvinafélag Húna II og varð strax hluti af fastri áhöfn Húna. Siggi var mikill happafengur fyrir Húna og allt til hinstu stundar stóð hann vaktina um borð í bátnum, sem honum þótti svo undurvænt um, með miklum sóma, og skarð hans sem myndast nú í áhafnarhópnum við ótímabært andlát hans verður ekki svo auðveldlega fyllt.
Sigurður tók að sér ýmis störf fyrir Hollvini Húna og þau öll vann hann af svo mikilli samviskusemi og metnaði að það verður ekki betur gert. Þar gekk hann að sínu og ljóst að áratuga reynsla hans af sjómennsku nýttist honum vel í öllum þeim störfum.
Siggi var rólegur maður, vann verk sín í hljóði og ávann sér virðingu og væntumþykju meðal áhafnarinnar á Húna.
Eitt hafði Sigurður umfram flesta menn er við þekkjum, það var þessi einstaki hlýleiki og þægilega orðfæri sem mætti öllum, háum sem lágum. Orðið „vinur“ var hans einkenni enda ávarpaði hann alla með þessu orði – „vinur“.
Annað sem einkenndi okkar mann var að sjá það jákvæða í fari hvers manns og ekki síst barnanna sem á hverju hausti komu og sigldu með okkur Húnamönnum í skólaverkefnunum. Þar var Sigurður á heimavelli og það vil ég segja að synir hans tveir sem nú syrgja látinn föður geta verið stoltir af ætterninu, og veit ég að mörg börn hér í bæ í áranna rás sem muna þennan einstaklega hæga og hlýja mann í áhöfninni á Húna.
Nú þegar kallið kom svo óvænt hjá okkar kæra vini stöndum við Húnafélagar allir og lútum höfði.
Dómur almættisins er harður, já mjög harður, en honum verður ekki breytt.
Efst í huga okkar Húnamanna er þakklæti til kærs vinar fyrir öll hans góðu störf, kynnin góð og vináttuna.
Við biðjum algóðan Guð að taka á mót Sigurði Bergþórssyni inn í sólarlandið bjarta handan þessa heims og veita honum þar sína eilífu hvíld. Það er vissa okkar og huggun harmi gegn á sorgarstund, að þar mæti hann hlýjum móðurfaðmi, en móðir Sigurðar, Jónína Axelsdóttir lést þann 13. desember sl. Bergþór faðir Sigurðar lést fyrir allmörgum árum.
Sonum Sigurðar, systkinum, sem og öllum öðrum ástvinum sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Góður drengur er genginn, hafðu þökk fyrir allt og allt.
Guð blessi minningu Sigurðar Bergþórssonar.
Útför Sigurðar fer fram í kyrrþey.
Fyrir hönd Hollvina Húna.
Sigfús Ólafur Helgason