Fara í efni
Minningargreinar

Sigríður Árnadóttir

Fyrir rúmum þremur áratugum varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að vera kynnt fyrir einstakri konu, Sigríði sem seinna varð tengdamóðir mín. Það var ágústkvöld og ég hálf feimin þar sem ég gekk inn í Hrafnó-ið. Skónum raðaði ég snyrtilega í forstofunni og gekk rólega, örlítið hikandi, inn í anddyri og eldhús. Við gluggann stóð lágvaxin kona sem tók á móti mér með mjög svo hlýju brosi. Á þeirri stundu hvarf allt hik. Sigríður var opin og hversdagsleg. Hún hafði mikla kímnigáfu og enginn þurfti að vera óöruggur í návist hennar, þvert á móti. Hún hafði unun af að segja frá, sérstaklega frá atvikum sem tengdust æskuárunum austur á Héraði og alls konar uppátækjum barna þeirra Jóhanns. Frásagnirnar voru glettnar, jafnvel þegar hún sagði frá alvarlegum hlutum. Við vorum ekki búnar að vera lengi í eldhúsinu þetta fyrsta kvöld þegar hún hóf að segja frá næstyngsta barninu sínu, manninum sem hafði boðið mér mér inn á æskuheimili sitt það kvöld. Stundum leist mér ekki á blikuna því aðeins nokkurra ára hafði drengurinn ákveðið að ganga á Súlur án vitneskju annarra og nánast þurft að kalla lögregluna til, hann hafði líka verið algerlega ófeiminn við að tala við ókunnuga, farið í heimsóknir án hennar vitundar og lent í svaðilförum á ferðalögum, en frásagnarmátinn var slíkur að við skellihlógum báðar.

Það er svo ótal margs annars að minnast. Til að mynda þegar ég bjó ein í Reykjavík, beið komu frumburðarins og hún hringdi reglulega til að kanna hvernig ég hafði það. Hvernig hún strauk alltaf fyrst yfir hendur barnabarnanna þegar hún fékk þau í fangið og kannaði hvort fremsti hluti fingra væri örlítið uppréttur, eins og á henni. Þegar þau Jóhann komu og gistu í Dalhúsunum og hún svaf eins og unglingarnir á meðan við Jóhann spjölluðum yfir morgunkaffinu. Hvernig við lásum bækur og ræddum þær á eftir, spurðum svo: en ertu búin að lesa þessa? Hvernig Varmalandsuppskriftir jólaíssins, jólabúðingsins og rauðrófnanna lifðu áfram. Hversu vel hún lýsti fyrir mér hvernig var að alast upp í torfbæ, svo ég geti sagt erlendum ferðamönnum hvernig lífið var á venjulegum sveitabæjum hér áður fyrr. Ég mun heldur aldrei gleyma hvernig hún laumaði gjarnan votti af kaldhæðni í frásagnirnar, brosti með augunum, beið, hló síðan lágt og við tókum öll undir.

Sigríður og Jóhann eignuðust sjö börn og fyrir okkur sem erum alin upp í fámennari fjölskyldum, þá er ómetanlegt að kynnast öðru fjölskyldumynstri: margmenninu við matarborðið, fjölmenninu á sameiginlegum stundum og heyra klið margra ólíkra radda. Á mínum meðgöngum sagði ég oft við sjálfa mig með mikilli lotningu: Og Sigríður gekk með sjö börn, sjö! Það er fáum gefið að feta í hennar fótspor, hvort heldur sem er í þeim efnum eða öðrum.

Elsku Sigríður, ég veit að það var vel tekið á móti þér því þín biðu margir sem vilja endurnýja kynnin. Minning þín mun lifa í mínu brjósti líkt og annarra sem hlotnaðist sú gæfa að fá að kynnast þér. Ég þakka þér fallega samfylgd, hún hefði ekki getað verið betri.

Hvíl í friði, þín tengdadóttir

Friðrika

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Ingibjörg Gústavsdóttir

Úlfar Bragason skrifar
19. ágúst 2024 | kl. 06:00

Kári Árnason

Knattspyrnufélag Akureyrar skrifar
19. júlí 2024 | kl. 11:00