Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir – lífshlaupið
Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir fæddist á Akureyri 8. desember 1950. Hún lést 19. febrúar 2024.
Foreldrar hennar eru Gunnar J. Sigurjónsson, f. 3. ágúst 1925, d. 28. ágúst 2004, og Jóhanna S. Tómasdóttir, f. 19. apríl 1929, búsett á Akureyri.
Systkini hennar eru: Tryggvi, Gunnar, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur og Tómas.
Börn Sigurlaugar eru: 1) Hanna Gunnur Sveinsdóttir, f. 16. janúar 1973, maki Jón Thorarensen. Börn þeirra eru Friðrik Ingi, Steinar Logi, Elmar Þór, Atli Gunnar og María Rún. 2) Sigurjón Þór Vignisson, f. 9. september 1982, maki Jónína Margrét Guðbjartsdóttir. Börn þeirra eru Freyja Rán og Jónatan Þór. 3) Stefán Ólafur Vignisson, f. 29. júní 1984, maki María Sigríður Sigfúsdóttir. Dætur þeirra eru Elísabet Aðalheiður, Júlía Sumarrós og Sonja Katrín.
Langömmudrengirnir eru Bastían Logi, Jökull Moli og Aron Þórður, og einn rétt ófæddur.
Sigurlaug starfaði lengst af hjá Rarik og svo Pósti og síma sem síðar varð Pósturinn, var flokksstjóri til margra ára, hún lauk starfsaldri sínum þar. Hún var trúnaðarmaður póstmannafélagsins um tíma og tók þátt í félagsstarfi stéttarfélagsins.
Alla tíð var hún í miklu félagsstarfi. Hún var virkur félagsmaður í Framsóknarflokknum í tugi ára og sinnti ýmsum nefndar- og trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og vann þar gjöfult starf fram á síðasta dag. Sat í miðstjórn flokksins, kjörstjórn NA-kjördæmis, sat í landsstjórn kvenna í framsókn fyrir Norðausturkjördæmi, einnig var hún sitjandi stjórnarmaður í SEF, sambandi eldri framsóknarmanna, þegar hún lést. Hún sat í stjórn Akureyrardeildar KEA. Til margra ára var hún formaður Styrktarfélags fatlaðra eða þangað til það var sameinað Þroskahjálp. Hún var mikill stuðningsmaður Íþróttafélagsins Þórs, spilaði handbolta fyrir félagið á yngri árum og sat í stjórn unglingaráðs félagsins um árabil, og vann mikið sjálfboðastarf fyrir félagið á árum áður.
Útför hennar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 4. mars 2024, klukkan 13.00.