Fara í efni
Pistlar

Rýjateppi

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 61

Eitt það hugtaka sem fór að heyrast æ oftar í eyrum manns þegar leið að lokum sjöunda áratugarins – og sá áttundi var að nálgast, var orðaleppurinn nýmóðins. Hann merkti öðru fremur að eyfirskir húsráðendur tækju mark á þeirri frumlegu fjölbreytni sem var farið að gæta í vöruvali á gardínum, gólfefnum og allra handa mublum sem þóttu vera framúrstefnulega hannaðar og settar saman.

Þetta var sumsé spurning um að tolla í tískunni, ellegar að tapa áttum í aðvífandi og óttafullum nútímanum.

Einkum og sér í lagi man ég eftir umræðunni um rýjateppi á tiltölulega tómlegu heimili mínu á Syðri-Brekkunni, sem árum saman gapti við manni með allsber steingólfin út í sérhvert horn og kima.

En vinkonur mömmu væru farnar að verða sér úti um svona efnisstranga að sunnan sem voru til þess fallnir að prýða og lífga upp á dagstofuna, jafnt á gólfum, veggjum, stólum og skammelum, en svo væru litríkir rýjapúðar líka mikið fyrir augað, sumir hverjir með framandi höfrungamynstri, ellegar hafmeyjum og sæhestum, sem þótti alveg aldeilis erlendis.

Það er skemmst frá því að segja að það rann rýjateppaæði á allar sæmilega meðvitaðar húsmæður á Akureyri í kringum 1970, og smyrnanálin var komin í hendur hverrar þeirrar einustu sem kepptist við að þræða garn í göt, en það hét á vandaðri íslensku að hnýta stiglið.

Og mikið óskaplega sem þetta fór vel í vistarverunni sem varð fyrir vikið svo hlýleg á vetrarkvöldum að litlir krakkar áttu það til að liggja á einni saman brókinni á mjúkri og þykkri rýjunni og hjala þar værðarlega fram að háttatíma.

Í endurlitinu situr mamma þar innan seilingar með nálina og skærin, en það verði að hafa sig alla við ef hún eigi að halda í við stöllur sínar.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: KEILUSPIL

Með tæknina mér við hlið: Hlutverk gervigreindar í skólastarfi

Ástrós Guðmundsdóttir skrifar
07. janúar 2025 | kl. 17:30

Að sjá raunveruleikann – Þrjú skref í átt að núvitund

Haukur Pálmason skrifar
06. janúar 2025 | kl. 06:00

Hjólreiðar

Jóhann Árelíuz skrifar
05. janúar 2025 | kl. 06:00

Trjárækt nyrðra á 19. öld

Sigurður Arnarson skrifar
01. janúar 2025 | kl. 13:00

Áramótahugleiðingar um list, eldri konur og karlakóra

Rakel Hinriksdóttir skrifar
01. janúar 2025 | kl. 06:00

Prentvillupúkinn leikur lausum hala

Haraldur Ingólfsson skrifar
31. desember 2024 | kl. 20:00