Fara í efni
Pistlar

Dýrtíð

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 67

Á tímum óðaverðbólgunnar um og upp úr 1970 gat verið nokkuð snúið að halda heimili með tekjur einnar fyrirvinnu. Pabbi vann og vann, virka daga og um helgar, en launin fuðruðu samt sem áður óðara upp á báli þenslunnar, svo húsmóðirin á heimilinu stóð eftir með æ þynnra veski í fórum sínum.

Svo og sísvanga krakka sem kröfðust sífellt meiri matar og klæða, af því engin takmörk virtust vera á því hvað þeir stækkuðu ört á bakstykkið og býfurnar.

Í endurminningunni sitja áhyggjufullar samræður í hugskoti manns. En pabbi skilur ekkert í því að fimmhundruðkallinn, sjálfur Hannes græni Hafstein, skuli ekki lengur duga fyrir vikuinnkaupunum. Og mamma áttar sig heldur ekki á því af hverju þessi helsti seðill vöruviðskiptanna í akureysku samfélagi skuli varla nægja lengur fyrir helstu nauðsynjum.

Svo það er sitthvað þrefað um ástand mála í hálfum hljóðum. Og ég greini ekki betur en þau blóti bæði helvítis dýrtíðinni. En það er raunar orðið sem glymur í eyrum okkar systkinanna næstu árin. Helvítis dýrtíðin. En stjórnvöld ráði bara ekki neitt við neitt, hvorki Ólafur Jóhannesson né Geir Hallgrímsson, en allt sé að fara til andskotans – og í ofanálag sé landhelgin nokkurn veginn að tapast.

Svo það eru erfiðir tímar í Espilundinum. Pabbi er alvarlega að velta því fyrir sér hvort blái seðillinn með Jóni forseta sé það sem koma skuli í innkaupunum fyrir sex manna fjölskyldu hans. Og hvernig það hafi gerst á örfáum misserum að verðlag hafi tvöfaldast.

En mamma er líka með böggum hildar. Þau verði auðvitað að herða sultarólina ef þau eigi að ná efnum saman. Og ég heyri það mér til nokkurrar skelfingar að kannski komi til greina að hætta að kaupa majones og tómatsósu.

En það sé þá svona komið, hugsa ég með mér, og gleypi munnvatnið eitt.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: HEILAGFISKI

Vatnsmiðlun skóga

Sigurður Arnarson skrifar
20. febrúar 2025 | kl. 15:00

Jesús og Júróvisjón

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
18. febrúar 2025 | kl. 12:30

Kári og Skúli

Jóhann Árelíuz skrifar
16. febrúar 2025 | kl. 06:00

Borð og stólar upp kirkjutröppurnar

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
14. febrúar 2025 | kl. 06:00

Formlegar og óformlegar núvitundaræfingar

Haukur Pálmason skrifar
12. febrúar 2025 | kl. 19:00

Lúsaryksugan glókollur

Sigurður Arnarson skrifar
12. febrúar 2025 | kl. 09:30