Fara í efni
Pistlar

KEA

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 69

Það var einhver fullnusta í orðinu. KEA hafði svarið við því sem að var spurt. Og löngum var það svo í endilöngum Eyjafirðinum að ef það fékkst ekki í Kaupfélaginu, þá þurfti maður ekki á því að halda.

Það var að minnsta kosti almælt í fjölskyldu minni, og gekk raunar miklu lengra í munni marga þeirra hörðustu í ættboganum þeim arna, því ef það fékkst ekki í búðinni okkar, þá var það ekki til – og hafði ekki verið framleitt.

En mér er minnisstæðust sagan af móðurömmu minni sem hafði einsett sér, ein og sömu jólin, að kaupa nýja nælonskyrtu á bónda sinn í tilefni hátíðanna. En sú gamla væri að verða veik á saumunum. Og það væri ekki lengur hægt að láta hann sjá sig svona aflaga til fara, einkanlega innan um annað fólk og fjarskylda.

En á síðustu dögum aðventunnar kom í ljós að skyrturnar af sömu sortinni voru uppurnar í Herrafatadeild KEA. Og hvað var til ráða? Flíkina varð hann að fá. Hún laumaði sér inn í Amaro, svo lítið bar á, og verslaði þar eina blússu á ektamakann. Hann yrði ekki í nokkrum færum að sjá muninn.

Annað kom á daginn. Afi fann það sjálfsagt á lyktinni. Strax og hann var búinn að taka utan af gjöfinni sá hann að samvinnuhugsjónin lék ekki um sjálfa flíkina, en hún væri líklega úr búðum auðvaldsins. En hvort kona sín hefði svikið lit?

Sem hún játaði seint á öðrum degi jóla, kökk í hálsinum.

Það segir svo af samvistum hjónanna í Gilsbakkavegi að afi hafði það ekki í sér að skila skyrtunni, því hann færi ekki inn í hvaða búðir sem væri, og hann vildi heldur ekki henda henni, enda gjöf frá ektakvinnu sinni, en hann myndi aldrei ganga í þessum forboðna fatnaði. Það væri hans síðasta.

Menn svikju ekki KEA.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: LINDUVEÐRIÐ

Hernámsárin ljóslifandi og kómísk í Freyvangi

Rakel Hinriksdóttir skrifar
03. mars 2025 | kl. 17:00

Brúsaburður

Jóhann Árelíuz skrifar
02. mars 2025 | kl. 15:15

Forboðnir ávextir, æsingur og æðibunugangur á Melum

Rakel Hinriksdóttir skrifar
02. mars 2025 | kl. 10:00

Síðbuxur

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
28. febrúar 2025 | kl. 06:00

Næfurhlynur – Tegund í útrýmingarhættu

Sigurður Arnarson skrifar
26. febrúar 2025 | kl. 13:00

Hús dagsins: Aðalstræti 52

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. febrúar 2025 | kl. 06:00