Heilagfiski

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 68
Á meðal torskildustu orða æsku minnar var heilagfiski.
Sjávarfangið það arna var kallað lúða á æskuheimili mínu, stundum spraka, að því er pabbi hafði á orði, ættaður að vestan, en amma mín í Gilsbakkavegi var á allt öðru máli, enda höll undir dönskuna, og kallaði flatfiskinn þessu konunglega nafni, heilafiske, sem henni fannst hæfa kjafti betur en lágkúruheitið lúða.
Og hann væri sumsé heilagur. Frá báðum tálknum og aftur úr. Og sá væri hvað best blessaður sem hefði hann tugginn vel í maga og görnum.
Við krakkarnir á heimilinu vorum ekkert að velta þessu mikið fyrir okkur. Það mátti kalla fiskana á okkar diski hvaða nafni sem var. Og raunar rann það allt saman í eitt. Enda fiskur í svo til hvert mál. Jafnt í hádegismat og kvöldmat. Allan heila veturinn á enda, sem gat orðið seint og um síðir.
Og hann var saltaður og siginn, grafinn og leginn, kæstur og hengdur, reyktur og þurrkaður, og svo náttúrlega þverskorinn í potti, ellegar steiktur á pönnu, og upphitaður í ofni, og stundum með rönd af majonesi í kring, ef óttast var um geymslustigið.
En það var alltaf fiskur. Í Eyjafirði gátu allar fjölskyldur gengið að því vísu að einhver nákominn ætti aukatekinn flatfisk, ýsu og þorsk.
En ég skildi aldrei þá umræðu að ekki mætti kalla flatfiskinn lúðu. Amma var svo hörð á því að maður sleppti einfaldlega samtalinu, hvað þá efasemdunum og rökræðunni. Því þetta var hennar hjartans mál, það ætti ekki að tala niður til feitasta fisksins sem í boði væri á hennar borðum, heldur að hefja hann upp til skýjanna, svo hann væri bæði Dönum og Guði þóknanlegur. Hrakyrði um heilagfiski væri ekki liðið í hennar húsum. Og vær så gud.
Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.
- Í NÆSTU VIKU: KEA


Féll af kústhestbaki

Vatnsmiðlun skóga

Jesús og Júróvisjón

Dýrtíð
