Fara í efni
Pistlar

Öskubakkar

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 12

Sjálfsagt var ekki tölu komandi á alla öskubakkana á æskuheimilinu. En það var heldur enginn að telja þá, slík nauðsynjavara sem þeir voru að allri sinni gerð og lögun – og margir raunar svo móðins að vart var meiri heimilisprýði að finna á fagurgljáandi palesander-borðunum um allan bæ.

Og þessir hraunuðu frá Glit báru vitaskuld af, svo mjög að mæður sem reyktu ekki einu sinni og höfðu jafnvel antípat á stybbunni, festu einnig kaup á þeim, svona til að heimilið toldi í tísku.

Mamma reykti Viceroy. En minnkaði svo við sig þegar tímar liðu fram – og fór að púa More. Það var líklega vegna þess að hinar konurnar í saumaklúbbnum voru farnar að státa af svoleiðis sígarettum. Það þótti meira lekkert að láta þær granngerðu standa fram úr fingri, og penna líka á vörunum.

Ég fékk stundum að raða rettunum í fagurlega útskorna skeljaöskju sem mamma var vön að koma fyrir ofan á löbernum á miðjum borðstofuskenkinum ef hún átti von á gestum á heimilinu. Og þess var gætt að þar við hliðina stæði voldugi bensínkveikjarinn í marmarahólknum sem þau pabbi höfðu keypt úti á Mallorca um árið. En annað eins uppfíriverk höfðu Akureyringar ekki séð í þá daga.

Einna skrýtnast fannst mér þegar sumar konurnar í boðunum tóku munnstykki upp úr pjönkum sínum og komu fyrir á öðrum enda vindlingsins áður en byrjað var að totta tóbakið. En það sagði mér sigldara fólk að það væri allra mesta prjálið, gott ef ekki á pari við það pjattaðasta í Hollywood.

Svo er minningin ekki merkilegri en svo að aðkomufólkið hvarf smám saman inn í seigþykka þokuna sem byrgði manni svo rækilega sýn að allt eins var gott að loka að sér inni í verelsi og anda þar að sér úrsvalri innlögninni.

En eftir sat þó sannfæringin. Sígarettur yrði maður að prófa fyrr en seinna.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Á komandi misserum munu birtast vikulegir pistlar hans á akureyri.net um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

  • Í NÆSTU VIKU: APÓTEKARALAKKRÍS

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30