Fara í efni
Pistlar

Ylfingur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 49

Auðvitað varð maður ylfingur á æskuárunum, enda um margt freistandi að feta stíginn niður þverbratta brekkubrúnina neðan við Eyrarlandsholtið og koma við í Hvammi, því vandlega búna félagsheimili skátahreyfingarinnar á Akureyri.

En þar var manni kennt að hnýta hnúta og leysa þá í sundur. Svo skipti heilu dagspörtunum. Enda engri tölu komið á fjölda þeirra – og nöfnin mörg hver harla skrýtin, en hvað fyrirferðarmest í munni voru axlabandahnútur, apahönd, hálfbragð, mullbinding og snafurvala, en einfaldara var að muna eftir fánahnúti sem var skátum náttúrlega hvað mikilvægastur og varð að vera óaðfinnanlegur. Ætli pelastikk hafi þó ekki verið praktískari til lengri tíma litið, enda náttúraður þeim göldrum að herðast jafn mikið og hann er auðleysanlegur.

Þó voru hnútarnir ekki aðalmálið, því vildi maður þroskast úr því að vera aumur ylfingur upp í það að verða alvörugefinn skáti í öllu því heila úniformi sem því fylgdi, varð að fara í útilegur, hvort sem litlu skinni líkaði það betur eða verr.

Og víkur þá sögunni að örlagaríkustu ferðinni af þeim öllum. Upphafinu að sjálfum endinum. Atvikinu sem öllu réði. Og kom í veg fyrir frekari frama í félagsheimilinu Hvammi undir brekkubrún. Í það minnsta í mínu tilviki.

En það var alltaf farið í Fálkafell, skátaskálann eina og sanna uppi á öxlum sjálfra Súlnanna. Og það mun hafa verið í eitt skiptið sem flokksforingja okkar láðist að segja okkur ylfingunum að hafa nesti með í för. Við vissum raunar að sá hinn sami var gefinn fyrir sopann, enda vínlykt af honum í öllum hnútatímunum, svo að það kom ekki beint á óvart að skipulagið væri í molum hjá manninum.

En við sváfum þarna um nóttina samt sem áður. Og héldum sársvangir heim um morguninn. Í mínu tilviki tók mamma á móti mér, svoleiðis yfirmáta hneyksluð á að heyra hvernig komið hefði fyrir okkur, að hún aftók með öllu að ég yrði skáti.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: BERRASSA

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00