Innskotsborð
AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 51
Þegar hausta fór – og það gerðist alveg örugglega fyrir botni Eyjafjarðar – tóku áhyggjurnar að aukast út af því að ekki væri nóg af innskotsborðum á heimilinu. Enn ein fermingin væri fram undan, jólaboðin þar á undan og páskahelgin, maður lifandi – og guð einn almáttugur vissi hvað það þyrfti að bjóða stórum ættboga á samkunduna, en það eitt væri þó víst að hann hefði stækkað frá því síðast var saman komið. Því ómegðin yxi bara á öllum bæjum.
Og hvort þau ættu ekki að snara sér niður til hans Nóa í Hofsbótinni og bæta við sig eins og enn einu innskotsborði. En þetta var umræðuefni haustins. Og stundum lengi vel á veturinn. Því innskotsborð væru málið. Þau leystu allar áhyggjur manns í viðamestu veisluhöldunum.
Mamma átti einhver tvö þegar ég var að komast til vits og ára, og þótti alveg sérlega vænt um þau bæði, enda redduðu þau heilu og hálfu saumaklúbbunum þegar kom að því að uppfarta vinkonurnar með kremi, smurðu og þeyttu.
En hvort hún þyrfti ekki á því þriðja að halda í þetta sinn? Það var spurningin sem vofði yfir heimilinu eins og hver annar skýjabakki. Hún væri jú alltaf að sníkja þau nokkur frá nágrönnunum þegar fyrir dyrum stæðu fjölmennustu gestaboðin á Brekkunni. Og það væri af því ami að vera eilíflega að trufla annað fólk út af innanstokksmunum – og snapa af því greiða.
Svo á endanum lét pabbi til leiðast. Það var ekið af stað á hasta Broncónum niður í bæ til að skoða úrvalið af innskotsborðum í húsgagnaverslun Jóhanns Ingimarssonar við sjálft Ráðhústorgið, en sá hinn sami var alltaf kallaður Nói og þótti bjóða upp á betri mublur í Örkinni sinni en almennt þekktist á Íslandi.
Og það sem mútta var sæl í dagslok. Hún hafði ekki augun af nýja settinu næstu vikurnar. Nú mættu sko gestirnir fara að koma. Og það bara í gommuvís.
Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.
- Í NÆSTU VIKU: KÓTILETTUR