Fara í efni
Pistlar

Draugagangur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 53

Nóvember merkti það öðru fremur að æfingaplanið var niðurneglt. En það skildi mætt í Fjallið flest öll síðdegin frá mánudegi til fimmtudags, og svo væri látið ráða hvað æfingin stæði langt fram í myrkur.

Þau okkar betri gætum svo skíðað niður í bæ, en rútan sækti afganginn.

En þetta voru býttin.

Nema þegar ófært var. Og þá sat mannskapurinn eftir uppi í Skíðastöðum og fékk hvergi að fara. Hvorki á eigin fótum, né með aðstoð annarra. Því ef það gerði veður í Eyjafirði, þá væru þau alvöru. Og það mættum við líka vita, litlu píslirnar, að það yrði ekki rutt fyrir okkur ein og sér, en við værum afgangsstærð.

Svo þá var bara að gista í gamla sjúkrahúsinu sem flutt hafði verið upp í fjall, svo til fáum árum áður, spýtu fyrir spýtu, svo hægt væri að fá sér súkkulaðibolla og smurt á milli brekkuferðanna. Mun þetta, að sögn, vera eini spítali álfunnar sem endaði sem skíðaskáli, og það til langrar frambúðar.

Vandinn var aftur á móti sá heima á Akureyri, að eldri krökkunum var tamt að segja okkur þeim yngri, að full til mikill draugagangur væri í húsinu. Þar væri reimt að endæmum. En þó með harla óvenjulegum hætti.

Málið væri að gólfið hefði verið hækkað í húsinu eftir að það var endurreist uppi í fjalli og fyrir vikið sæjust afturgöngurnar fara bara hálfar um hæðina, ef þær létu á sér kræla. En það vantaði sumsé á þær lappirnar upp til klofs. Þess vegna heyrðist ekkert í fótataki þeirra þegar þær nálguðust. Eins og þar færu sniglar.

Og þar var nú óhugurinn einkum kominn.

Nefnilega sá að horfa til Fjallsins, og þrá það eitt að spreyta sig á skíðum, en vita af möguleikanum að sofa hjá framliðnum og fótalausum Eyfirðingum.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: KVÖLDLEIKIR

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00