Fara í efni
Pistlar

Berrasssa

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 50

Sú var tíðin að Akureyri var enn þá svo saklaus og vel meinandi bær að engum klámblöðum var þar til að dreifa. Okkur strákunum á Syðri-Brekkunni fannst það heldur engu skipta, enda hvarflaði það ekki að okkur allan sjöunda áratuginn að við yrðum nokkurn tíma kynþroska. Tippi var til þess eins að pissa. Og bernskan leið því bara í einfeldni sinni og algerri blindni í þessum viðurkvæmilegu efnum.

Það var heldur ekki til siðs að tala um kynlíf og kynfæri, og hvað þá samfarir, hvorki heima fyrir né innan skólaveggjanna – og síðar átti raunar eftir að koma á daginn að blaðsíða 82 í líffræðibókinni væri ekki börnum bjóðandi, svo það var bara hlaupið yfir hana í uppfræðslu okkar smáfólksins um það vandræðalega spursmál hvernig mannfólkið verður til.

En svo gerist það að einn vinur okkar og sonur húsvarðarins í Gamla skóla niður undir brekkubrún hvíslar því að okkur í einum frímínútunum, þar sem við erum að sparka bolta á milli okkar, að hann hafi fundið rykfallnar filmur í gömlum pappakössum í kjallaranum – og ein af þeim sé af allsberri konu og karli í svo að segja fulllöngum faðmlögum. En hvort við viljum koma heim til hans að horfa?

Og það verður úr, enda þótt við vissum vísast allir í strákahópnum að við værum að fara að gera eitthvað af okkur. En það gerði ferðina heim til vinarins bara enn þá meira spennandi. Hrútshornin á okkur voru enda óhörðnuð.

Svo var filmunni fyrir komið á átta millimetra maskínunni. Og ljósin slökkt. En minningin er ekki merkilegri en svo að þarna virtum við fyrir okkur eitthvað ókunnugt fólk vera að stynja þungan og pústa út í eitt eftir því sem það fór oftar höndum hvort um annað, berrassa bæði tvennt og býsna andnauðugt.

Þetta fannst okkur helst til langdregið og leiðinlegt. Svo það varð úr að við fórum bara aftur út í fótbolta. Það væri þá hreyfing í lagi, fannst okkur öllum.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: INNSKOTSBORÐ

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00