Fara í efni
Umræðan

Opið bréf til Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar

Sæll Logi.

Ég skrifa þér þetta bréf vegna þess að ég tel mikilsvert fyrir hinn almenna kjósanda að þú veitir efnisleg svör við nokkrum spurningum varðandi stefnu, afstöðu og gerðir flokks þíns, og ekki síst þín sjálfs varðandi Reykjavíkurflugvöll. Þín sjálfs þar sem þú ert jú formaður þess flokks sem gengið hefur harðast fram gegn þessum flugvelli og m.a. haft forystu um lokun neyðarbrautarinnar, auk þess sem þú ert sjálfur í framboði í því kjördæmi sem reiðir sig hvað mest á þennan flugvöll, ekki síst í sjúkraflugi.

Undanfarið hafa birst auglýsingar frá Samfylkingunni, m.a. á samfélagsmiðlum, þar sem blásið er til sóknar í byggðamálum og auk þess vísað til þjóðarvilja. Þetta vekur spurningar sem ég og fleiri höfum komið á framfæri á þeim þráðum á fésbókinni þar sem þessar auglýsingar hafa birst, og hafa þær spurningar haft sérstaka skírskotun til framgöngu flokks þíns gegn Reykjavíkurflugvelli til þessa. Aðeins hef ég séð eitt andsvar frá þér, sem skorti átakanlega efnislegt svar, en þess í stað var einungis hnýtt í aðra flokka vegna málsins. Einhverra hluta vegna er þessi þráður (um sókn í byggðamálum) ekki lengur sýnilegur á fésbókarsíðu Samfylkingarinnar. Þess utan barst eitt „svar“ frá „admin“ Samfylkingarinnar, þar sem bent var á samkomulag sem er í gildi milli ríkis og borgar, þar sem kveðið er á um að ekki verði hróflað við Reykjavíkurflugvelli uns önnur jafn góð eða betri lausn á legu hans hefur fundist. En fyrir utan að reynslan af fyrri fjölmörgum samkomulögum milli ríkis og borgar um Reykjavíkurflugvöll gefur hreint ekki tilefni til bjartsýni varðandi efndir borgarinnar, þá er ég engu nær um spurnarefni mín svo nú kýs ég að endurtaka þessar spurningar mínar til þín og mættu einnig aðrir meðframbjóðendur þínir og flokkssystkyn hér í kjördæminu svara þeim fyrir sitt leyti:

  • Hefur þú nokkurn tíma gert athugasemdir opinberlega eða innan flokks þíns, vegna þeirrar staðreyndar að þrátt fyrir að engin önnur jafn góð eða betri lausn á legu flugvallarins liggi fyrir, kveður aðalskipulag Reykjavíkurborgar enn á um brottvikningu hans á næstu árum (nú 2032)?
  • Fari svo að athuganir á veðurfari vegna möguleika á nýju flugvallarstæði leiði ekki til niðurstöðu um jafn góða eða betri lausn, telur þú rétt að halda til streitu lokun flugvallarins í samræmi við aðalskipulag borgarinnar? Væri það í samræmi við áðurnefnt samkomulag ríkis og borgar að þínu mati?
  • Hefur þú nokkurn tíma hreyft mótmælum, opinberlega eða innan flokks þíns, gegn lokun neyðarbrautarinnar?
  • Telur þú að lokun flugvallarins eða sú skerðing hans sem þegar er orðin (lokun neyðarbrautarinnar og þrengingar flugvallarstæðisins) samrýmist þeim byggðarsjónarmiðum sem flokkurinn þinn er nú (eða var) að boða með auglýsingum sínum?
  • Telur þú að lokun flugvallarins eða sú skerðing hans sem þegar er orðin (lokun neyðarbrautarinnar og þrengingar flugvallarstæðisins) samrýmist þeim þjóðarvilja, sem flokkurinn þinn boðar nú að farið skuli eftir? Stóð vilji þjóðarinnar e.t.v. til þess að loka neyðarbrautinni?

Ég tek það skýrt fram að hér er ég ekki að lýsa eftir afstöðu eða breytni annarra flokka í þessu máli eða skoðunum þínum þar um, heldur aðeins beinni skoðun þinni á þessu tiltekna málefni og breytni þinni í því hingað til, sem og flokks þíns, samkvæmt orðanna hljóðan í spurningunum hér að ofan. Efnisleg svör óskast, vinsamlegast.

Þorkell Ásgeir Jóhannsson er flugstjóri á Akureyri.

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Njál Trausta áfram sem þingmann okkar í Norðausturkjördæmi

Inga Stella Pétursdóttir, Elín Dögg Gunnars Väljaots, Ólöf Hallgrímsdóttir, Gunnlaugur Eiðsson, Arngrímur B. Jóhannsson og Guðmundur Bjarnason skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 21:30

Sögulegt tækifæri

Logi Einarsson, Eydís Ásbjörnsdóttir, Sæunn Gísladóttir og Sindri S. Kristjánsson skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 13:30

Ágæti kjósandi – Það er komið að þér

Sigurjón Þórðarson skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:15

Nei þeir mega það ekki!

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:00

Hugvekja á Ýli

Hildur María Hansdóttir skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 15:30