Magnús Guðlaugur Lórenzson
Erfitt er að hugsa til þess að þú pabbi sért farinn líka svo stutt á eftir mömmu en ég verð að trúa því að þið mamma séuð nú sameinuð á ný.
Elsku pabbi minn hann Maggi Lór var sterkur karakter sem sagði hlutina eins og þeir voru en hann var jafnframt blíður og ljúfur er við átti og lét ekki vaða yfir sig á skítugum skónum. Hann var mikill fjölskyldumaður, náttúruunnandi, veiðimaður, bóndi og ræktandi á dýr og mat og voru jarðarberin þar í uppáhaldi síðustu árin. Einnig var hann hagleikssmiður byggði sitt eigið hús við Lyngholt 2 (en var númer ellefu er það var byggt og breyttist í tvö tíu árum síðar) ásamt bróður sínum honum Kidda Lór og bjuggu þeir þar saman í 30 ár er pabbi seldi sína hæð og flytur í Arnarsíðu 6a. Flaggstöng og snúrustaura smíðaði hann sjálfur við húsin. Árið 2003 fluttu hann og mamma í Lindasíðu 39.
Á árum áður fórum við margar veiðiferðir í ár og vötn hér í kring og veiddum alltaf vel, einnig gengum við til rjúpna, fórum á gæs og ekki síst á sjófugl á firðinum á trillunni sem hann smíðaði að forskrift Nóa heitins bátasmiðs og undir hans leiðsögn. Trillan fékk nafnið Lórenz og hafði einkennisstafina EA 611.
Lórenz EA var happafley og var fiskað vel alla tíð bæði á línu, færi og í net.
Man að við rérum oft út á Hörgárgrunn og jafnvel lengra. Störf hans til sjós og lands tengdust öll hans menntun sem vélvirkjameistari og vélfræðingur í skipasmíðastöð og síldarvinnslum.
Bústörf stundaði hann nær allt sitt líf, átti kindur í félagi við Gunnsa bróður sinn og hesta í félagi við mig en ég búandi í Grindavík á þeim tíma og hann á Akureyri. Hann sendi mér hestana og ég fékk inni fyrir þá hjá vinnuveitanda mínum sem hélt hesta líka. Margar góðar sögur eru til af pabba og hvatvísi hans en einu sinni sem oftar varð að sækja kynbætur í nágrannasveitarfélögin og þegar hann var að koma í heimsókn til okkar í Garðabæ og Grindavík sá hann folald sem honum leist vel á og stoppaði á bænum og spurði bóndann út í gripinn og hvort hann gæti fengið hann keyptan. Jú, jú, ekkert mál sagði bóndinn, takk fyrir það sagði pabbi, ég kem við á bakaleiðinni og geng frá þessu við þig. Því miður varð ekkert úr þessum fallega skjótta fola þar sem hann óx ekki uppfyrir þúfu.
Hægt væri að fylla mörg dagblöð af sögum um ferðirnar hans pabba um heiminn en hann sigldi meðal annars tvisvar sinnum hringinn í kringum hnöttinn. Hann ferðaðist mikið um landið sem honum þótti alltaf vænst um. Hvíl í friði elsku pabbi þín verður sárt saknað.
Þinn sonur Eyfi