Fara í efni
Pistlar

Saumaherbergi

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 76

Niðurinn af Husquarna er ein mikilvægasta æskuminningin. En þá skiptu þau með sér verkum, hjónin á Syðri-Brekkunni, og pabbi gekk frá í eldhúsinu og sópaði gólfin, en mamma steig inn í saumaherbergið við hliðina, og byrjaði að knitta saman sniðin, eins og það hét í verelsinu því arna.

Þetta voru nefnilega tímar haftanna, og það var enginn óþarfi fluttur inn frá útlöndum, og fötin barnanna voru ýmist prjónuð eða saumuð, en jafnvel hekluð ef það átti að skreyta bót úr bekk svo eftir væri tekið.

Því var afráðið af hæstráðendum í fjölskyldunni, einmitt þegar sjöundi og áttundi áratugurinn vógu salt í stundaglasinu – og nýja einbýlishúsið í Espilundinum lá á teikniborðinu – að hafa sérstakt saumaherbergi áfast uppþvottahorninu, svo einhver yrðu nú afköstin í fataframleiðslunni.

Ég man þegar saumaskápurinn var vígður, með sænsku saumavélinni á miðju borði, en furðulega mörgum skúffum af smæstu gerðinni til beggja hliða, fyrir títuprjóna og tvinna af öllu tagi. En þetta var í öllu falli mikill mekanismi, og fyrir lítinn dreng með meðalgáfur var á við upplifun að fá að fikta í því öllu saman, ef enginn sá til á heimilinu.

En meginatriðið er kliður kærleikans, að sitja á bólstruðum kolli við hlið mömmu sinnar á síðkveldi og sjá hana sauma rauða Lakk-kápu á systur sína, fjórum árum eldri, sem var að fara að fermast, en vart var hægt að hugsa sér meiri tíðindi en að horfa á stóru stelpuna á heimilinu klæða sig heimstískunni, herlegheita gervileðri af bestu og fáanlegri sort.

Framleidda á eigin heimili.

En þetta gætum við einmitt sjálf á Syðri-Brekkunni. Saumað allan heiminn ef því væri að skipta, bítlaföt og bráðum útvíðar, úr litríkum og ögrandi efnum.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: BRAVO

Lútur á grænni flösku

Jóhann Árelíuz skrifar
20. apríl 2025 | kl. 06:00

Hrossafóður í morgunmat

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
19. apríl 2025 | kl. 06:00

Þjálfarinn tæklaður upp í stalla

Orri Páll Ormarsson skrifar
18. apríl 2025 | kl. 10:00

Snípur í skógi

Sigurður Arnarson skrifar
16. apríl 2025 | kl. 08:45

Hús dagsins: Aðalstræti 66a; Smiðjan

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. apríl 2025 | kl. 20:00

Njóli

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
14. apríl 2025 | kl. 11:00