Fara í efni
Pistlar

Bravo

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 77

Ég keypti fyrsta tónlistartímaritið mitt í bókabúðinni Huld í Hafnarstræti þegar ég var tíu ára gamall. Og að mér fannst að verða ellefu. En þannig voru árin talin í æsku manns, sem liðu hraðar en almanakið.

Því maður var alltaf að verða eitthvað. Eldri, og helst miklu eldri. Og ef það dugði ekki til, var farið í háhælaskóna, útvíðar og glansskyrtur með fílamunstri.

Og þetta var Bravo. Og borgað fyrir af fyrstu innborgun þess að dreifa Degi á Syðri-Brekkunni. Því mikilvæga málgagni. Svo maður var þá orðinn til einhvers gagns. Átti fyrir hlutunum. Og þar á meðal þessu þýska tónlistartímariti sem birti opnumyndir af svölustu hljómsveitum sinnar tíðar, klæddum í ævintýralegri múnderingar en maður hafði áður séð, og svo var hárgreiðslan heldur villtari en Haddi og aðrir klipparar í bænum höfðu viðurkennt að væru til siðs.

Vandinn var bara sá að maður þekkti ekkert þessi bönd. Gunni bróðir var vitaskuld fimm árum eldri, og kunni skil á þeim öllum, en af því að maður vildi ekki vera minni maður, hengdi maður plakötin upp um alla veggi í herbergi sínu. Og horfði fullur aðdáunar á það heila prentverk í prýðilegum litum, án þess þó að vita hvaða fólk þetta var sem góndi á móti manni.

En svona hefst rokkævi allra, að því er sagan segir – og skrifuð er á blað. Fyrstu átrúnaðargoðin eru bara andlit á veggmynd, án þess að maður hafi nokkru sinni hlustað á þau æpa í hljóðnemann.

Því það vantaði alltaf plötur í bæinn. Þær komu í helst til litlum slöttum. Gott ef Pálmi í Tónabúðinni bænheyrði ekki allan skarann við innanverðan Eyjafjörðinn á sjöunda áratugnum – og byrjaði að tengja tónin við útlönd.

Þaðan fór maður inn í heyrnatólin. Og ólst þar upp.  

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: SERIE A

Pétur læknir

Jóhann Árelíuz skrifar
27. apríl 2025 | kl. 06:00

Bjóðum þjófa og slordóna velkomna

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
26. apríl 2025 | kl. 06:00

Amma Kristín

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
25. apríl 2025 | kl. 06:00

Júdasartré

Sigurður Arnarson skrifar
23. apríl 2025 | kl. 08:30

Saumaherbergi

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
21. apríl 2025 | kl. 11:30

Lútur á grænni flösku

Jóhann Árelíuz skrifar
20. apríl 2025 | kl. 06:00