Kári Árnason
Kveðjuorð frá Íþróttafélaginu Þór.
Í dag kveðjum við Akureyringar Kára Árnason hinstu kveðju, og sannarlega má segja hann einn af okkar mætustu sonum bæjarins.
Kári Árnason var knattspyrnumaður með ÍBA á síðustu öld og saga knattspyrnu á Akureyri er og verður ekki sögð án þess að Kára Árnasonar sé þar ítrekað getið.
Kári hóf að leika knattspyrnu í meistaraflokki Íþróttabandalags Akureyrar, ÍBA, sameiginlegu liði Þórs og KA árið 1961 aðeins 17 ára gamall og þá strax sama ár var hann valinn í landslið Íslands, svo miklir voru hæfileikar hans strax á unga aldri.
ÍBA var liðið OKKAR allra á Akureyri og við bæjarbúar studdum strákana okkar og alltaf þegar ÍBA lék á glæsilegum Akureyrarvellinum var hátíð á Akureyri.
Kári Árnason var ótrúlega markheppinn og fljótur leikmaður sem andstæðingar hans áttu erfitt með að stöðva, og í rúman áratug var Kári einn allra besti knattpyrnumaður landsins og dáður hér í bæ sem þjóðhetja.
Kári var í liði ÍBA er vann bikarmeistaratitil KSÍ árið 1969, þann eina sem hefur unnist af liði frá Akureyri enn sem komið er og gerði þar með það lið að goðsögn hér í bæ sem enn lifir.
Kári var glæsileg fyrirmynd margra ungra drengja.
Kári var íþróttakennari að mennt og kenndi mörgum drengjum á langri starfsævi sinni leikfimi og það ber öllum saman er minnast Kára nú að þar hafi farið einstaklega fær og góður kennari.
Kára Árnasonar verður minnst sem góðs félaga okkar Þórsara alla tíð þótt hann hafi verið KA maður og allan hans feril í ÍBA peysunni var hann heill og sannur leikmaður ÍBA og þar með Akureyrar, og nú á þessum degi þegar kveðjustundin er óumflúin, lútum við Þórsarar höfði og þökkum Kára Árnasyni framlag hans til knattspyrnu hér í bæ.
Góður drengur er genginn.
Íþróttafélagið Þór sendir eftirlifandi eiginkonu Kára Árnasonar, Ásdísi Þorvaldsdóttur, dætrum þeirra, og fjölskyldum sem og öllum öðrum ættingju hans sínar innilegustu samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Kára Árnasonar.
Íþróttafélagið Þór