Kara Guðrún Melstað
Elfa Ágústsdóttir flutti minningarorð um æskuvinkonu sína, Köru Guðrúnu Melstað, í minningarathöfn í Akureyrarkirkju í dag. Elfa veitti Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta ávarpið.
Kæru ættingjar og ástvinir Köru Guðrúnar!
Við Kara höfum verið vinkonur í tæp 50 ár og hefur það verið lukka í mínu lífi.
Við kynntumst og urðum bestu vinkonur í Gagganum og eyddum miklum tíma saman. Kara ólst upp á stóru ástríku heimili í Bjarmastígnum. Það var nokkuð ævintýralegt hús á 3 hæðum. Uppi bjuggu föðuramma og ömmusystir hennar. Kjarnakonur af Ströndum. Þær hjálpuðu mikið til og tóku virkan þátt í lífi fjölskyldunnar niðri, Grétars, Önnu og barnanna fjögurra. Anna var frá Fagrabæ, mjög falleg, glaðsinna yndisleg kona. Kara átti góðar æskuminningar úr sveitinni í Fagrabæ þar sem móðurforeldrar hennar bjuggu stóru fjárbúi.
Heimilið í Bjarmastígnum var alltaf opið okkur vinum Köru og vorum við mikið þar. Við Kara sátum oft í stiganum í ónotuðu rými bakatil í húsinu. Þar lét hún sig dreyma um ýmsar framkvæmdir og skipulagði sem sitt herbergi. Þannig að hönnunarhæfileikar hennar og framkvæmdahugur komu snemma í ljós.
Mamma Köru féll frá árið sem við vorum stúdentar og var það mikið áfall. Pabbi hennar lést 7 árum síðar. Samband hennar við systkinin sín var afar sterkt, mikil væntumþykja þar á milli og bar hún hag þeirra alla tíð mjög fyrir brjósti. Það gladdi hana að Magga er bóndi í Fagrabæ og Vala hefur byggt upp gistiheimili í Bjarmastígnum. Elska og umhyggja þeirra systra við Köru í hennar veikindum var falleg og ómetanleg.
Í landsprófi vorum við í þéttum skemmtanaglöðum vinahópi, þar kynntust þau Alli og hófu samband sitt kornung. Kara sá strax framtíðareiginmanninn í honum, skörp að vanda.
Þau hófu sambúð á menntaskólaárunum og með Alla eignaðist Kara frábæra tengdafjölskyldu sem reyndist henni vel frá fyrstu stund, Lilla tók hana undir sinn stóra verndarvæng og voru þær mjög nánar og góðar vinkonur alla tíð.
Eftir menntaskólann hófst bæði fullorðins lífið og handboltaferillinn fyrir alvöru, Kara og Alli menntuðu sig og fluttu síðan til útlanda. Þar bjó hún fjölskyldunni heimili á fleiri stöðum og studdi Alla í einu og öllu. Hún var einstök eiginkona, jákvæð, hvetjandi og hugsaði fyrir öllu. Betri konu var ekki hægt að hafa sér við hlið.
Börnin komu í heiminn og fjölskyldulífið var annasamt. Bjuggu þau á uppvaxtarárum krakkana í Þýskalandi, á Spáni og hér heima á Íslandi. Kara var frábær mamma og bera börnin þrjú foreldrunum sínum fagurt vitni. Hún var fjölskyldumanneskja af lífi og sál, börnin voru stolt hennar og gleði og mikil hamingja þegar barnabörnin bættust í hópinn.
Kara var gegnheil, sönn, heiðarleg og góð manneskja. Stórglæsileg, létt í lund og hafði frábæran húmor, mjög jarðbundin og hafði skarpa sýn á menn og málefni.
Þegar við vorum 10 ára stúdentar varð hún við ósk árgangsins og hélt fyrir okkar hönd mjög góða ræðu á MA hátíðinni 17. júní. Alltaf til sóma
Hún og Alli voru samhent og dugleg. Unnu, gerðu upp hús, fluttu milli landa, stofnuðu fyrirtæki og ólu upp börn. Hún fór létt með þetta, listræn, skipulögð og mjög smekkleg. Það var alltaf hægt að treysta 100% á Köru og mikið á ég eftir að sakna okkar samverustunda, kankvísa brossins og trúnaðarsamtala sem við áttum.
Wendgräben var draumur þeirra beggja. Þar var Kara í essinu sínu og hæfileikar hennar nutu sín til fulls í endurbyggingu húsa og skipulagningu á öllu úti og inni. Garðurinn var ekkert smáræði og ljómaði hún öll þegar hún lýsti fyrir mér vinnslu á berjum, ávöxtum og öðru sem þau ræktuðu. Hún var frábær kokkur og var með ýmis plön um framleiðslu og sölu á afurðunum. Þau voru óþreytandi í uppbyggingunni og Alli fór víða til að kaupa alls kyns vélar, dót og áhöld. Kanski misgáfuleg kaup en ákaflega skemmtileg. Garðurinn gaf vel af sér enda þegar aðrir plöntuðu 2 trjám fóru 20 niður hjá þeim og uppskeran hundruð kílóa.
Þarna ætluðu þau að eldast saman og njóta. Í síðustu ferðinni hennar heim til Akureyrar ljómuðu þau af ást og hamingju. Sigur virtist unnin á meininu en krabbinn hafði hinsvegar önnur plön og rændi vinkonu mína lífinu allt of snemma þrátt fyrir mikla og hetjulega baráttu. Mikill er missir okkar allra en mestur er hann Alla og börnunum. Þið áttuð alla hennar ást.
Besta mamman, eiginkonan, systir og vinur er gengin. Kara - minning þín býr í hjörtum okkar allra og í mínu elsku vinkona eins lengi og það slær.