Fara í efni
Minningargreinar

Jón Laxdal Halldórsson

Þegar ég byrjaði í Barna­skóla Ak­ur­eyr­ar var ég nem­andi barna­kenn­ar­ans og síðar bæj­arlista­manns­ins Þor­vald­ar Þor­steins­son­ar. Hinum núll­bekkn­um kenndi ann­ar bæj­arlistamaður, Jón Lax­dal Hall­dórs­son en hon­um kynnt­ist ég aldrei sem smá­barna­kenn­ara. Senni­lega muna all­ir nem­end­ur skól­ans samt eft­ir hon­um því hann gekk um á gul­um gúmmí­stíg­vél­um. Þetta vakti at­hygli og um­tal barn­anna og jafn­vel hneyksl­an enda flest af góðum heim­il­um. Á þess­um tíma gekk full­orðið fólk í Iðunn­ar­skóm frá Sam­band­inu og Ak­ur­eyri ekki orðinn sá menn­ing­ar- og tízku­bær sem hann er í dag með sína ít­ölsku skó og listagil. Sam­tíma­börn eiga sjálfsagt erfitt með að ímynda sér að gul stíg­vél geti haft svona mikið að segja því heim­ur­inn í dag er full­ur af körl­um í konu­föt­um og kon­um í smá­barna­föt­um á In­sta­gram svo ekki sé minnst á Crock-skó í öll­um regn­bog­ans lit­um í raun­heim­um. En á þess­um tíma var þetta ein­stakt og hef­ur senni­lega haft meiri áhrif en marg­an grun­ar og er til merk­is um hvað Jón Lax­dal var flink­ur pedagóg og fag­ur­keri því auðvitað var Barna­skóli Ak­ur­eyr­ar gul­málaður. Seinna tóku sum barn­anna upp á því að heim­sækja Rauða húsið þar sem boðið var upp á sam­tíma­list og rokk-tónlist í ris­inu og þannig tók Jón áfram þátt í að bjarga lífi barn­anna.

Þegar ég hóf nám við Mynd­list­ar­skóla Ak­ur­eyr­ar var Jón Lax­dal þar kenn­ari. Þetta var mjög góður skóli en að sumu leyti íhalds­sam­ur og var Jón Lax­dal nauðsyn­legt mót­vægi enda fram­sæk­inn og gagn­rýn­inn. Eft­ir skóla var ekki farið heim og horft á sjón­varpið því það var ekk­ert sjón­varp á fimmtu­dög­um, held­ur haldið áfram að auðga and­ann með hvers kyns ljóðum og var Jón hvatamaður að út­gáfu bók­ar­inn­ar Rif­bein sem Ólund gaf út með skrif­um ungra höf­unda. Jón Lax­dal og Kristján Pét­ur prentuðu bók­ina ef ég man rétt í gamla barna­skól­an­um (ekki þess­um gula) þar sem þeir og fleiri lista­menn voru með aðstöðu og prentvél. Fyr­ir ungt fólk sem var að hefja sína lista­braut var ómet­an­legt að kynn­ast al­vöru­lista­mönn­um og rokk­ur­um í húð og hár og fá að njóta kunn­átt­unn­ar sem þeir deildu af miklu ör­læti.

En Jón var ekki bara góður kenn­ari held­ur var hann fyrst og fremst listamaður, meira að segja bæj­arlistamaður Ak­ur­eyr­ar árið 1993. Mér finnst reynd­ar Jón Lax­dal hafa verið bæj­arlistamaður Ak­ur­eyr­ar í fjöru­tíu ár en það er gott að hann skyldi fá laun eitt árið. Ég myndi segja að hann hafi verið gang­andi lista­verk þar sem per­sónu­leg fag­ur­fræði, kímni­gáfa og ákveðin upp­reisn krist­allaðist í gul­um stíg­vél­um.

Ásmund­ur Ásmunds­son

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01