Fara í efni
Pistlar

Ísinn á Pollinum

Saga úr Innbænum - II

Í fyrsta sinn sem hann mundi eftir sér á skautum var hann á tveggja blaða skautum sem voru spenntir undir stígvélin hans með leðurreimum. Það gekk alls ekki vel að fóta sig á þeim en þetta var bara byrjunin. Svo eignaðist hann alvöru hokkískauta, brúna og svarta með rauðum og gulum reimum. Seinna fékk hann svo hlauparaskauta frá Noregi og þeim fylgdi útbúnaður til skerpingar. Það voru græjur það og þá var rennslið gott.

Ísinn á Pollinum var svolítið grófur og rennslið minna en á ferskvatnsís en spyrnan góð. Það var mögnuð tilfinning að vera á ísnum þegar svellið var slétt og allur Pollurinn frosinn.

Það hafði verið ís á Pollinum í tvær vikur og krakkarnir höfðu þegar leikið sér talsvert á ísnum. Þau höfðu heyrt að nær landinu að austan væri ísinn sléttari og betri. Þau höfðu ákveðið að hittast nokkur saman um kvöldið og skauta saman. Stelpurnar úr Fjörunni ætluðu líka að koma með og það leist honum vel á því í þeim hópi voru sætar og skemmtilegar stelpur sem hann hafði ekkert á móti að hitta. Og þær voru líka góðar á skautum. Það hafði safnast saman stór hópur við Höpfnersbryggjuna þegar hann kom og þau lögðu af stað. Þegar þau höfðu skautað dágóða stund og voru komin langleiðina austur yfir sáu þau að ísinn var dökkur og sléttur og alveg ósnortinn eins og spegill og að því er virtist óendanlegur til allra átta. Það var orðið dimmt og bjart tungsljós varpaði birtu sem speglaðist fagurlega af ísnum. Hann jók hraðann og skautaði yfir ísinn og hinir fylgdu á eftir. Hlátrarsköllin voru þögnuð og þau skautuðu hratt og í takt hvert við annað. Enginn hafði lengur þörf fyrir að spjalla. Ekkert rauf þögnina nema taktfast hljóðið þegar þau spyrntu með skautunum á ísinn. Fyrst heyrðist daufur smellur þegar skautinn lenti á hörðum ísnum, svo brakandi hljóð sem magnaðist eftir því sem spyrnan jókst og endaði með háu hljóði líkt og þegar þykkur dúkur rifnar. Af og til heyrðust djúpir dynkir sem virtust koma úr fjarska frá djúpinu og berast upp í gegnum ísinn. Hljóðið var ólýsanlega djúpt eða dimmt og honum fannst eins og ísinn hreyfðist í takt við hljóðið. Hann fann einkennilega kennd innanbrjósts. Honum fannst hann takast á loft, fljúga og vera frjáls. Honum fannst gott að finna návist vinna sinna og hann heyrði andardrátt þeirra allt umhverfis en allir þögðu og voru á valdi þessarra töfra náttúrunnar. Ljósin í bænum voru fjarlæg og óskýr. Þetta var eins og í draumi. Tunglið nánast fullt, hátt á himni og glampaði í spegilsléttu svellinu. Þessari skautaferð myndi hann aldrei gleyma.

Næstu daga var ísinn orðinn mjög þykkur. Bjarki og fleiri höfðu farið fram á ísinn á köggunum sínum og óku þar um, gáfu duglega í og skrönsuðu. Það fannst strákunum svalt. Og karlarnir höfðu tekið sig til og skipulagt keppni í dorgi. Þeir hjuggu göt á ísinn og dorguðu um vök og það fiskaðist vel. Fólkið gekk eða skautaði á milli vaka og veiðistaða og fylgdist með. Svo gerðist það á föstudaginn langa að örfáir karlar höfðu farið til veiða en lögreglan kom, eftir ábendingu frá einhverjum og bað menn vinsamlega að hætta veiðum. Slíkt væri ekki tilhlýðilegt á þesum degi. Þetta þótti okkur krökkunum merkilegt og karlarnir komu ósáttir að landi.

En þetta hafði vakið áhuga hans og hann langaði óskaplega til að fá að prófa að veiða. Hann nauðaði í afa sínum að koma með og að lokum lét afi til leiðast og veiðidagurinn rann upp. Hann settist við vökina sem afi hans hafði höggvið í ísinn. Honum fannst gatið of lítið. Hvað ef hann veiddi stærri fisk en svo að kæmist um þetta litla op. En afi hans sannfærði hann um að þetta væri nógu stór vök. Ísinn var um 20 cm þykkur og það var talsverð vinna við að brjóta gatið með gömlu exinni. Svo kom ískurl á yfirborð sjávarins og hann hreinsaði það reglulega burt. Hann hafði fundið gamalt færi í kjallaranum heima með nokkrum ryðguðum krókum og stórri sökku. Láttu síga langt niður sagði afi, helst þangað til þú botnar, síðan dregur þú upp nokkra faðma. Hann sat á skíðasleðanum og dorgaði. Ekkert gerðist. Það hafði verið blankalogn þegar þeir komu og hann hafði horft til baka upp á land og séð sólina skína á húsin í Innbænum sem honum fannst vera svo einkennilega fjarri. En nú fór að blása og það var komin hríðarmugga. Afi leit út með firði og sagði: Þetta stendur stutt, það fer að hlána því það er blár himinn við Kaldbakinn. En honum var orðið kalt. Hann blotnaði við að handleika girnið og það var gat á öðrum þumlinum á vettlingnum hans svo sjór og snjór komst þar inn. Fleiri voru að veiða í grennd við þá á ísnum. Hann sá að við hliðina á vök Gústa var komin væn kös af fallegum fiski. Hann er svo vanur sagði afi sem sá hvert hann skotraði augunum. Dragðu aðeins lengra upp og dorgaðu sneggra hrópaði Gústi til hans. Hann reyndi að handleika færið rétt og bera sig vel en sannleikurinn var sá að hann langaði að hætta og komast heim. Allt í einu var kippt í færið svo snöggt að það lá við að hann missti það. Dragðu hægt upp hvatti afi. Hann fann að eitthvað togaði í og hann mátti hafa sig allan við að streitast á móti. Svo var eins og togið slaknaði og hann hélt eitt augnablik að fiskurinn hefði losnað af. En svo þegar hann hélt áfram að hala inn fann hann að það var eitthvað var á færinu. Hann hafði slakað langt niður í upphafi svo það var talsverð vinna að vinda inn allt girnið og loksins birtist lítið kóð í vökinni sem sprikklaði duglega og sjór og ískurl slettist framan í hann. Honum fannst þetta nú ekki vera mikil veiði og vonbrigðin leyndu sér ekki en hann dróg samt fiskinn upp á ísinn. Ætlarðu ekki að draga allt færið inn spurði afi. Á næsta krók var ekkert en nú fann hann að það var eitthvað að gerast í vökinni. Upp kom fiskhaus sem var allt öðru vísi en hann hafði séð áður. Þetta var ekki sá guli, þorskurinn og ekki var það ýsa. Hann líktist frekar laxi á roðið. Upp með fiskinn strákur kallaði afi og strákarnir frá næstu veiðistöðum voru komnir og hópuðust umhverfis þá. Hann var staðinn upp af sleðanum og tók á öllu sínu til að draga fiskinn upp úr vökinni og hann barðist um og var þungur og tók verulega á móti. Honum fannst eins og hann væri að draga slöngu upp úr körfu svo langur var bolurinn sem kom upp úr vökinni. Fiskurinn sprikklaði góða stund. Þetta var stærsti fiskur sem hann hafði veitt og sá fallegasti. Hreistrið var silfurgrátt og uggarnir rauðir. Enginn hafði séð svona fisk áður. Ég held þessi fiskur heiti Vogmær sagði Siddi en ég er ekki viss.

Afi hafði rétt fyrir sér og dagana á eftir fór veður hlýnandi og ísinn losnaði frá landi og brotnaði og þá var kjörið að fara í jakahlaup. Einnig voru notaðar langar stangir til að stjaka stærri jökunum líkt og flekum. Þetta voru skipin okkar. Svenni var stærstur og hann þorði að fara langt frá landi á sínum jaka sem hann kallaði Tröllafoss. Jakinn hans Halldórs var næstum eins stór en prikið hans, sem var brotin hokkíkylfa, var of stutt svo þegar hann reyndi að sigla á eftir Svenna botnaði hann ekki lengur og rak frá landi. Þetta leit ekki vel út en samt var það mikill ís úti fyrir að við vissum að hann færi svo sem aldrei langt út á fjörð en það var samt slæmt ef hann ræki út fyrir bakkann þar sem dýpið jókst mjög hratt. Við vissum ekki hvernig við gátum aðstoðað hann til að komast til baka. Hann var kominn fram hjá Svenna sem gat ekkert gert heldur.

Á milli stóru jakanna voru minni jakabrot og allt í einu komi Óli Baddi á fullri ferð í jakahlaupi. Minni jakarnir gáfu eftir þegar hann hljóp yfir þá, fóru í kafi og veltust um þegar hann hljóp yfir á næstu jaka. Gömlu stígvélin hans voru allt of stór og gáfu ekki góða viðspyrnu á sleipum og blautum ísnum. En hann stökk á milli jakanna með miklum gusugangi þar til að hann var kominn yfir á stóra jakann til Halldórs. Í öllum látunum hafði hann gleymt að taka með stöngina sína. Hann horfi til lands á okkur hina og renndi sér svo á maganum fram af ísjakanum og í sjóinn. Sjórinn náði honum í geirvörtur. Hann lagði hendurnar flatar upp á ísinn og byrjaði að vaða í land og ýtti jakanum á undan sér. Þetta gekk afar hægt því jakinn var stór og þungur. Halldór reyndi að hjálpa til með því að róa með prikinu og nú var jakinn kominn svo nálægt Tröllafossi að Svenni gat hoppað yfir til Halldórs og hjálpaði til með að stjaka jakanum nær landi. Nú gekk þetta betur og strákarnir voru sælir með að komast í land og Óli var fljótur að koma sér heim blautur eftir volkið.

Ólafur Þór Ævarsson er Akureyringur, fæddur og uppalinn í Innbænum. Hann er geðlæknir og starfar einnig að forvörnum og fræðslu hjá Streituskólanum.

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00