Heilbrigðishagfræði

Segja má, ef maður leyfir sér vissa kaldhæðni og neikvæðni, að stefna ríkisins undanfarna áratugi, varðandi fjármögnun heilbrigðiskerfisins, hafi verið: Látum ekki of mikla fjármuni í kerfið, þetta bólgnar bara út, þetta heilbrigðsstarfsfólk kann ekki með fjármuni að fara. Sannkölluð bremsustefna með meðvituðu svelti og ómarkvissum niðurskurði. Og það er að koma okkur í koll núna að í þessum anda hefur starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar sífellt verið látið hlaupa hraðar vegna manneklu sem hefur leitt til óeðlilega hárrar tíðni alvarlegrar kulnunar. Og við höfum verið svo föst í þessari hugsun og aðferðarfræði að allar síðustu ríkisstjórnir hafa hagað sér svipað. Líkt og gamli bankastjórinn sem lánaði bara fyrir hluta af byggingakostnaði hússins og verkið strandaði og húsið stóð óklárað og autt. Vandinn sést líka í að minna fjármagni er hlutfallslega veitt til heilbrigðismála hérlendis miðað við flest önnur vestræn ríki.
Hugsanlega er það rangt að líta á kostnað við heilbrigðisþjónustu sem útgjöld. Ef til vill er betra að líta á góða heilsu sem gagnlega og sameiginlega eign okkar allra, þjóðarinnnar.
Það er alveg rétt að fagfólk í heilbrigðisþjónustu hefur sterkan vilja til að veita sem besta þjónustu og nýjar aðferðir í rannsóknum og meðferð eru dýrari en þær gömlu og mikill þrýstingur er frá fólki um nýjar og dýrar meðferðir, já og sem stundum eru ekki nauðsynlegar. En þetta má leysa með því að skilgreina betur hvaða þjónustu við eigum rétt á frá ríkinu og taka skýrari ábyrgð á því hvernig hún er veitt og án ónauðsynlegra tafa. Nú orðið þarf býsna mikla hörku til að fá þá þjónustu sem við þörfnumst og víða er bið. Þeir hópar sem ekki hafa mikið afl til þess að berjast fyrir sínu, eru börn, geðsjúkir (þar með talið þeir sem berjast við fíknisjúkdóma) og aldraðir. Þetta eru einmitt hópar sem væri hagkvæmt fjárhagslega að sinna vel. Til eru góðar rannsóknir og reynsla sem sýna og sanna að ef einmitt þessir hópar fá markvissa, sérhæfa heilbrigðisþjónustu eins og snemmtæk inngrip og endurhæfingu samtvinnað við viðeigandi félagsleg úrræði (mat, húsnæði og virkni) þá bætir það ekki aðeins líðan og lengir líf, heldur lækkar heildarkostnað, dregur úr endurinnlögnum og leysir fráflæðisvanda spítalans og eykur hag fjölskyldu þess sjúka og samfélagsins í heild.
Það er ríkari þörf fyrir hugarfarsbreytingu en nýja pólitíska stefnu eða nýtt Excel skjal.
Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir


Snípur í skógi

Hús dagsins: Aðalstræti 66a; Smiðjan

Njóli

Uss í görðum
