Fara í efni
Pistlar

Endalok Janus endurhæfingar

Janus endurhæfing er einstök og mikilvæg meðferðarstöð fyrir ungt fólk með alvarlega geðsjúkdóma. Ákveðið hefur verið að segja upp starfssamningi um Janus endurhæfingu um mitt þetta ár. Við það hverfur mikilvæg þjónusta við viðkvæman hóp og dýrmæt sérþekking teymisins.

Eftir ítrekaðar yfirlýsingar og stjórnarsáttmála um að efla þjónustu við þennan hóp, efast fáir um vilja ríkisstjórnarinnar í þessu máli en hér birtist samt áralangt stefnuleysi og skortur á fjármagni til geðrænnar endurhæfingar. Því þegar skortur hefur verið á heilbrigðisþjónustunni sem ríkinu ber að veita þá hafa einstaklingar, sjúklingahópar og aðstandendafélög eða samtök fundið leiðir til að bjóða upp á þjónustuna með einkaframtaki. Stundum hefur það tekist vel stundum ekki. Í seinni tíð finnst okkur einkarekin barna og uppeldisheimili ekki alltaf hafa staðið sig, svona eftir á að hyggja. Og oft hefur pólítísk sýn valdið ósanngjarnri gagnrýni á það sem vel hefur gengið. Dæmi um það er mótlætið sem SÁÁ hefur lengi orðið fyrir frá ríkinu þrátt fyrir frábæra starfsemi.

Úrræði fyrir geðræna endurhæfingu hefur lengri skort og þau eru svo sérhæf að til þyrfti að vera fjölmörg slík teymi en þar brást ríkisrekna heilbrigðsiskerfið. Janus endurhæfing var fyrst stofnuð af verkalýðshreyfingunni fyrir löngu en við tóku hugrakkir frumkvöðlar og heilbrigðisstarfsfólk sem þekkti þörf fyrir slíka þjónustu og hefur unnið hugsjónastarf í áratugi til að byggja upp þjónustuna. Þetta er íslenska leiðin í svo mörgu í heilbrigðisþjónustunni. Til þess að leysa vandann við skilningsleysi stjórnvalda kom upp sú hugmynd að Starfsendurhæfingarsjóður Virk greiddi 75% og Sjúkratrygginar Íslands 25%. Þetta leysti fjarhagsvandann í nokkra áratugi en nú virðist Virk ekki lengur vilja taka þátt í þessu. Það er e.t.v skiljanlegt því fjármagn Virk kemur frá aðilum vinnumarkaðarins. Því ættu þeir að greiða fyrir meðferð fólks sem hefur enn ekki greitt skatta og á í erfiðleikum með að komast inn á vinnumarkaðinn. Eða ætti að segja: Einmitt þess vegna ætti Virk að halda áfram að greiða í slíka starfssemi? Þar sýnist hverjum eins og hann vill en hrósa má Virk fyrir að hafa tekið svo glæsilegan þátt í að greiða fyrir þessa starfsemi svo lengi á meðan að ríkið hefði átt að gera það. En þátttaka Virk og afskiptasemi af stjórn Janus endurhæfingar hefur valdið truflun. Í Virk er lítil, ef til vill engin þekking á geðrænni endurhæfingu. Þetta birtist í óheppilegum takmörkunum á hverjir fá meðferðina, hvenær og hve lengi. Og þá hefur oft ekki verið hlustað á rök fagfólks sem þekkir málefni einstakra sjúklinga mjög vel. Hugmynd um að Virk yfirtaki þjónustuna gengur einfaldlega ekki. Skoðun á því að starfsemin flyttist á Geðsvið endurhæfingar á Reykjalundi er vel þess virði og væri hægt að rökstyðja vel faglega en þá verður að fylgja nægilegt og eðlilegt fjármagn. Besta lausnin er að tryggja starf Janus endurhæfingar eins og hún er með fullri og myndarlegri fjárveitingu frá ríkinu sem gæti þá sótt fjárstuðning til verkefnisins frá aðilum vinnumarkaðarins og án afskipta Virk enda er ekki hlutverk Virk að veita heilbrigðisþjónustu. Minna má á að á hátíðarstundum er oft talað um nauðsyn þess að styðja við þátttöku fatlaðra á vinnumarkaðnum. Sú löngun hefur hugsanlega verið til staðar í þessu ferli en nú sést klúðrið og hvernig þetta er alls ekki að ganga upp.

Vandinn sem hér birtist er þó mun stærri. Staða geðrænnar endurhæfingar á Íslandi í dag er mjög veik og ég fullyrði að ef svo hefði ekki verið þá væri mun minna af alvarlegum atvikum og truflunum sem orsakast af langt gegnum ómeðhöndluðum geðsjúkdómum og sem við heyrum reglulega af í fréttum.

Góð og aðgengileg geðræn endurhæfing er ásamt skjótri greiningu án biðlista langöflugasta forvörnin.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir
Hagsmunayfirlýsing

Ég starfa ekki hjá Janus endurhæfingu og hef engra fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Ég þekki vel til starfseminnar og hef fylgst með uppbyggingu og þróun faglega starfsins þar enda hefur það vakið athygli og aðdáun hérlendis sem erlendis.

Ungt fólk með alvarlega geðröskun á sér fáa þrýstihópa og mér ber sem geðlækni að vekja athygli á þessum mikilvæga málstað og þeim vanda sem nú blasir við vegna rangra ákvarðana stjórnenda.

En mér er það ekki bara skylt heldur líka ljúft því að á langri starfsævi við geðræna endurhæfingu hef ég séð stórkostlegan árangur af slíkri starfssemi og ávinning fyrir þann sjúka, aðstandendur hans og samfélagið allt.

Tengslaröskun geðlæknisins

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
02. apríl 2025 | kl. 08:45

Nokkur grunnhugtök um vatn í jarðvegsauðlindinni

Sigurður Arnarson skrifar
02. apríl 2025 | kl. 08:30

Rauðkál

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 11:30

Fíkn og viðhorf

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 09:45

Hús dagsins: Aðalstræti 66; Indriðahús

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 07:45

Selur í eldhúsvaski

Jóhann Árelíuz skrifar
30. mars 2025 | kl. 09:00