Vanrækt og gleymt horn geðheilbrigðisþjónustunnar

Hæfing og endurhæfing er það þegar þegar beitt er sérstakri þjálfun og eflingarmeðferð til þess að byggja upp eða endurheimta hæfni og getu sem ekki var til staðar eða hafði versnað eða glatast. Orskir er alvarlegir eða truflandi sjúkdómar sem hindra eðlilegan þroska eða skaða færni sem hafði áður náðst. Svo tekin séu dæmi:
Ungur fótboltamaður hefur náð mikilli færni í íþrótt sinni en skaddast á hné og liðband slitnar. Skerðingin er skaddaður liður og hann getur ekki haldið áfram að spila. Ef aðgerð er gerð fljótt næst aftur stöðugleiki í hnjáliðnum en jafnvel þó hún takist vel þarf að efla styrk í vöðvum og liðböndum og þetta er gert með þjálfun og endurteknum markvissum æfingum. Ef karlmaður á miðjum aldri fær hjartaáfall eða Parkinson sjúkdóm er stór hluti af meðferðinni að endurhæfa hjartastarfsemina og hreyfigetuna með eflingu og stigvaxandi æfingum. Konan sem gengið hefur í gegnum erfiða krabbameinsmeðferð er orkulaus og döpur og í ríkri þörf fyrir hvatningu, stuðning og þarf að læra nýjar aðferðir við að takast á við lífið. Þetta eru dæmi um endurhæfingu en slíkar aðferðir eru mikilvægur þáttur og vaxandi í meðferð margra líkamlegra sjúkdóma. Og þetta á einnig við um meðferð geðsjúkdóma. Þar skiptir góð geðræn endurhæfing oft mjög miklu máli. Fræðasvið geðrænnar endurhæfingar er umfangsmikið og þróað og oftast er slík meðferð veitt í þverfaglegum teymum þar sem margar stéttir geðheilbrigðisfræðinga taka þátt. Áður var þessi þjónusta nær eingöngu veitt innan veggja spítala en þegar innlagnarplássum vegna geðsjúkdóma var fækkað stórlega fyrir um þremur til fjórum áratugum þá fækkaði framboði á þessari mikilvægu þjónustu mjög mikið. Enn er geðræn endurhæfing þó í boði við Geðdeild Landspítala og á Reykjalundi en hún hentar alls ekki öllum og löng bið er eftir þjónustunni.
Við þessa minnkun á þjónustu tóku nýjar meðferðareiningar og eflingarstaðir að myndast, oft reknar af hugsjónafólki eða jafnvel sjúklingunum sjálfum, fólki sem skildi og vissi þörfina á þessari sérhæfu þjónustu.
Nefna má staði eins og Klúbbinn Geysi, Hugarafl, Hlutverkasetur, Fjölsmiðjuna og fleiri. Þessi starfsemi er ekki vel skilgreind hvorki faglega né fjárhagslega en þeir sem þekkja vel til þjónustunnar telja að hér sé unnið merkilegt, árangursríkt og nauðsynlegt starf við oft takmarkaðar aðstæður og ónógan fjárhagslegan grunn svo að sem bestur árangur fengist. Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki greitt fyrir þessa þjónustu nema að litlu leyti en sumir þessara staða hafa þó fengið takmarkaðar greiðslu af fjárlögum.
Starfsemin er ólík að inntaki og hugmyndafræði. Sums staðar er lögð áhersla á valdeflingu og samherjastuðning en á öðrum er unnið samkvæmt mikilli faglegri þekkingu. Annað dæmi um geðræna endurhæfingu er metnaðarfull starfsemi göngudeildar og dagdeildar sem byggð var upp við geðdeild sjúkrahússins á Akureyri á árum áður sem skilaði betri þjónustu og uppbyggingu og þróunar geðrænnar endurhæfingar á Norðurlandi sem átti síðar þátt í að koma á Geðheilsumiðstöð Grófarinnar.
Þriðja dæmið er Janus endurhæfing þar sem hefur verið rekin mjög sérhæf geðræn endurhæfing í áratugi með áherslu á snemmtæk inngrip og stuðning við menntun hjá ungu fólki með geðraskanir. Geðræn endurhæfing er talin mjög mikilvæg, ekki aðeins til að bæta getu og líðan þeirra sjúku, heldur hafa heilsuhagfræðingar í mörgum löndum bent á þann mikla sparnað sem af henni hlýst og kemur fram í minni kostnaði við félags- og heilbrigðisþjónustu viðkomandi síðar og til aukinna skattatekna ef vel tekst til og viðkomandi kemst út á vinnumarkaðinn. Það er því sérstaklega leitt hvað stjórnmálamenn og stjórnendur fjármála- og heilbrigðisráðuneytanna hafa sýnt þessum málaflokki lítinn áhuga og skilning á undanförnum árum og áratugum. Engin yfirsýn eða yfirstjórn er til yfir þessa starfsemi. Mörkin við ábyrgðarsvið félagsþjónustunnar eru óljós. Tilraunir til að tengja þessa starfsemi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis eða Starfsendurhæfingasjóð Virk hafa ekki gefist vel og nefna mætti um þetta mörg dæmi.
Þær einingar sem veita geðræna endurhæfingu eru stöðugt að berjast gegn skilnings- og stuðningleysi stjórnvalda. Síðasta dæmið er að uppi eru hugmyndir um að leggja niður starfssemi Janus endurhæfingar í þeirri mynd sem nú er og að starfsemin færist undir Virk. Þar er unnið merkilegt starf á sviði starfsendurhæfingar en ekki er til staðar nauðsynleg sérþekking á geðrænni endurhæfingu. Við þetta myndi mikilvæg þjónusta við allra veikasta fólkið hverfa og dýrmæt sérþekking teymisins glatast. Geðræn endurhæfing á Íslandi hefur átt sér fáa málsvara og því er virkilega áhugavert að fylgjast nú með hvort það gæti ekki breyst til batnaðar, því lesi maður stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar þá ætti rík áhersla á geðræna endurhæfingu að vera með allra fyrstu forgangsatriðum.
Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir


Nokkur grunnhugtök um vatn í jarðvegsauðlindinni

Rauðkál

Fíkn og viðhorf

Hús dagsins: Aðalstræti 66; Indriðahús
