Ingvi Rafn Jóhannsson
„Það er ráð við öllu nema ráðaleysinu,“ sagði pabbi oft, sérstaklega þegar hann vildi hvetja okkur áfram. Það var honum í blóð borið að vera sporgöngumaður, hugsa í lausnum. Hann talaði frekar um að það væri hálfljós en hálfmyrkur þegar vonleysið greip fólk og átti þá við að það væri alltaf ljós þótt sólin dveldi bak við drungaleg ský.
Pabbi var nýársbarn foreldra sinna og lýsti upp veröldina, var elskaður skilyrðislaust. Svo dró ský fyrir sólu þegar hann var aðeins sex mánaða og móðir hans veiktist af berklum og þurfti að fara á Kristneshæli. Hún lést tæpum mánuði áður en hann varð tveggja ára. Sorgin helltist yfir veröld þeirra feðga en greinilegt að þá var leitað í tónlistina, afi samdi mörg lög, prelúdíur og postlódíur sem gráta. Pabbi byrjaði að syngja tveggja ára og söngurinn og tónlistin varð hans akkeri alla tíð.
Að eiga föður sem hefur þessa lífsreynslu var í raun okkar gæfa því hann var svo miklu dýpri og vitrari vegna þess. Hann trúði á hið góða og miðlaði því til okkar. Hans gæfa var svo að hitta mömmu sem kenndi honum hvað sterk fjölskylda þýðir mikið fyrir börn. Mamma kom úr níu barna hópi úr Aðalvík þar sem samstaða var leiðarstefið og uppgjöf ekki til. Pabbi var einbirni. Saman eignuðust þau okkur systkinin átta, fyrst stelpurnar sex og svo strákana tvo. Sama á hverju gekk, þá var hópurinn samheldinn og sterkur.
Pabbi gaf okkur tækifæri til að taka þátt í rekstri fyrirtækisins Raftækni. Þar lærði ég m.a. hvað debet og kredit þýddi, ýmsar söluræður, að svara í síma, leysa úr margs konar vandræðum, virða iðnaðarmenn og bjarga mér. Hann eftirlét mér að reka verslunina þegar ég var 12 ára í nokkrar vikur þegar þau fóru til Ítalíu. Þegar hann var inntur eftir því hver væri nú í búðinni sagði hann stoltur að það væri hún María Björk, hún væri nú líka á þrettánda ári og gæti þetta.
Pabbi var flinkur að gefa hverju okkar systkinanna óskipta athygli, hlusta og gantast. Hann var mikill mannþekkjari og treysti eigin innsæi. Eftir að barnabörnin og síðar langafabörnin fæddust, eitt af öðru, sýndi hann þeim sömu athyglina og umhyggjan leyndi sér ekki. Pabbi varð hjartað og límið í fjölskyldunni, ekki síst eftir að mamma dó fyrir 22 árum.
Ég kveð pabba minn full þakklætis fyrir elskuna, umhyggjuna, sögurnar, ættræknina, tónlistina, gleðina og lausnamiðaða nálgunina í lífinu. Minnug þess að reiðir menn syngja ekki og góðir menn gráta, eins og hann sagði gjarnan, eftirlætur hann afkomendunum og þeim sem hann kynntist lífsspeki sem gott er að temja sér.
Farðu í friði, takk fyrir allt og allt.
María Björk