Fara í efni
Pistlar

Húsin í Innbænum

Saga úr Innbænum - III

Minnið er ekki óbrigðult og minningarnar mótast með tímanum, breytast með lífsreynslu hvers og eins eftir því sem árin líða. Sumar minningarnar falla í gleymskunnar dá, aðrar fara í geymslu og úrvinnslu undirmeðvitundarinnar og rifjast upp þegar svo ber undir. Aðrar minningar standa okkur ljóslifandi fyrir sjónum alla tíð, næstum hvern einasta dag sem við lifum. Hluti af þeim er þó einungis upplifun, stemming eða tilfinning og smáatriðin óljósari. Keimur af gömlum, löngu liðnum dögum og lífsreynslu.

Alveg frá því ég man fyrst eftir mér lásum við Familie Journal og Hjemmet. Amma fékk þessi blöð send í hverri viku frá Danmörku. Og þetta var lesið upp til agna. Síðan voru blöðin geymd vandlega, ef fletta þurfti upp einhverju síðar. Það voru stórar kistur fullar af þessum blöðum í kjallaranum og mátti alls ekki henda. Þetta var Facebook og fréttaveita þess tíma. Amma og langamma lásu og töluðu dönskuna reiprennandi þrátt fyrir að hafa aldrei lært hana í skóla. Langamma hafði reyndar komið kornung sveitastelpa úr Svarfaðardalnum og gerst stofustúlka hjá kaupmanninum danska og lærði þar dönsku, nýja siði og varð um leið heimsborgari. Samt fór hún einungis tvisvar til Reykjavíkur á ævi sinni og aldrei erlendis. Hún vissi allt um dönsku konungsfjölskylduna og það fór ekkert fram hjá henni sem gerðist í Amalíuborg, bæði gott og miður gott. Kjólar og snið og tíska kom einnig í þessum blöðum og það voru saumaðir kjólar og prjónaðar peysur og húfur eftir uppskriftum og amma talaði um Dirch Passer sem fjölskylduvin. Við krakkarnir lærðum fljótt að klóra okkur fram úr ævintýrum Knoll og Tott.

Það var talað um gamla tímann og menningu danska fólksins af virðingu og vináttu og sem barn fékk maður á tilfinninguna að góður tími og stór væri liðinn. Okkar kynslóð upplifði bara minninguna, leyfarnar. Stóru gömlu dönsku húsin í Innbænum voru mörg komin í niðurníðslu og garðarnir þar sem danska yfirstéttin hélt sínar glæsilegu garðveislur voru flestir orðnir moldugir leikvellir okkar barnanna og inn á milli húsanna stóðu stóru gömlu skandínavísku trén sem áður höfðu orðið vitni að veislum og evrópsku menningarlífi. Og nöfn fyrri eigenda loddu við húsin, Schiöthshúsið, Höepfnershúsið, Túliníusarhúsið eða voru kölluð eftir starfseminni sem þau hýstu áður eins og Apótekið, Símstöðin og Gamli spítalinn. Minningarnar um fyrri tíma voru alls staðar umhverfis okkur.

Flest eldri húsanna í Innbænum voru byggð úr timbri og margt eldra fólkið óttaðist eldinn. Við sem yngri vorum heyrðum sögur af frægum bruna þegar stór hluti gamla Innbæjarins brann margt fyrir löngu og nær í tímanum var minnistæður atburður í huga eldri kynslóðanna en það var þegar hótelið brann. Sá bruni varð nokkru áður en ég fæddist en þegar afi og amma töluðu um þann atburð, en það gerðu þau oft, þá var eins og hann hefði gerst í gær, svo ljóslifandi var hann fyrir hugskotum þeirra og lifandi minningar um ægilegt eldhaf og miklar hetjudáðir við að bjarga stóru timburhúsunum í kring.

Ég man sjálfur eftir nokkrum húsbrunum í Innbænum. Hús ofarlega í Gilinu brann illa. Einu sinni kviknaði í Gamla spítalanum og einnig í húsi á mótum Aðalstrætis og Hafnarstrætis. Gott ef ekki brann líka stórt hús uppi í Spítalavegi. Það sem er sameiginlegt í minningunni er ógnin og óttinn. Hættan var mikil. Kæfandi reykurinn, eldurinn dáleiðandi og hitinn magnþrunginn. Í minningunni standa stórar og ógnvekjandi eldtungurnar út úr gluggunum og sleiktu þakskeggin. Einkennilegar og óvæntar drunurnar og sogið í eldinum. Neistaflugið áleitið og þeyttist um allt. Hálfklætt fólk á hlaupum að bjarga innanstokksmunum. Hróp og köll. Skari af forvitnum krökkum að fylgjst með. Já það vorum við. Okkur fannst spennandi að fylgjast með störfum slökkviliðsmannanna sem voru hetjurnar okkar. Þeir komu alls staðar að, hlaupandi eða í stórum rauðum brunabílunum og klæddust klunnalegum hjálmum og þykkum svörtum kápum með gulum röndum. Stundum voru þeir með stórar axir reiddar. Og þeir lögðu digrar slöngur frá tankbílum og brunahönum og síðan stóð vatnsbunan beint inn í eldhafið. Hávaðinn í stórum bílmótorum, dælum og sírenum var svo yfirþyrmandi að maður þurfti að halda fyrir eyrun. Tilfinningin sem þetta skóp var blandin ótta, æsingi og spennu. Og daginn eftir þegar löngu var búið að slökkva eldinn og slökkviliðsmenn höfðu vaktað húsið yfir nóttina var skrítið að nálgast vettvanginn aftur. Það var áhrifaríkt og erfitt að standa frammi fyrir brunnu húsi, í djúpri þögn eftir allan hávaðann og lætin, í kulda vetrarins og létt snjódrífa hafði lagst yfir hálfbrunnin húsgögn og heimilisdót sem lá á víð og dreif umhverfis. Skemmdir veggir og rofin þök, rúðulausir gapandi gluggar eins og augntóftir í hauskúpu og stórar svartar rákir í kring um gluggaop og dyr. Það var ógnvekjandi sjón.

Dag einn sáum við mikinn reyk leggja frá litla timburhúsinu handan götunnar. Það er kviknað í hjá Öllu og Jóa sagði afi og fór beint að svarta símanum og hringdi á slökkviliðið. Amma bannaði okkur krökkunum að fara út og við settumst við gluggann með nefin útflött að rúðunni og fylgdumst með því sem fram fór. Mamma hljóp beint úr eldhúsinu, á nælonsloppnum úr Hagkaup, yfir götuna og við sáum hana hverfa inn í brennandi húsið. Þetta leist okkur systkinunum hreint ekkert á. Marga menn og konur hafði nú drifið að og það heyrðist vælandi sírenuhljóð úr fjarska. Gluggi sprakk á efri hæð hússins með miklum hvelli og reykjarbólstrar þyrluðust út. Slökkviliðsmenn voru komnir og slöngur voru tengdar við tankbíla og brunahana og slökkvistarfið gat hafist. En hvar var mamma. Eftir að okkur fannst eilífðarstund birtist hún loks út úr reykkófinu og leiddi Öllu við hlið sér. Gamla konan virtist buguð og hélt fast um veskið sitt. Annað komst hún ekki með út úr húsinu. Þær komu svo inn í íbúðina til okkar og smám saman voru þar samankomnir flestir sem bjuggu í húsinu sem nú var að brenna. Reykjarlyktin í íbúðinni okkar var orðin yfirþyrmandi. Næstu sólarhringana, finnst mér í minningunni, að hafi verið sofandi fólk á dýnum og bekkjum um allt hús og lágvær hvatningarorð og hughreystingar heyrðust. Enginn hafði sem betur fer skaddast. En sterkast í minningunni er þó konfektið sem skilið var eftir hjá okkur í þakklætisskyni fyrir gistinætur húsnæðislausu fjölskyldunnar. Þetta var Macintosh baukur af stærstu gerð. Þessir baukar sjást nú oft i búðum, sérstaklega fyrir jólin en á þeim tíma hafði ekkert í líkingu við þetta sést áður í Aðalstræti. Þegar lokið var tekið af blasti við konfektið sem eins og allir vita er vafið í litríkan pappír í öllum regnbogans litum. Svona nammi fékkst sko ekki hjá Steinþóri í Brynju. Við borðuðum upp úr bauknum á nokkrum dögum. Það sem var óvenjulegt við þetta konfekt og festi það enn betur í minni var bragðið. Eða það mætti segja bragðið og lyktin. Það var af hverjum einasta mola stæk lykt og sterkt reykjarbragð en það hindraði okkur ekki í borða þá alla og njóta þeirra. Svona eru nú ólíkar hliðar lífsins: Súrt og sætt, ferskt og reykt, gleði og sorg.

Ólafur Þór Ævarsson er Akureyringur, fæddur og uppalinn í Innbænum. Hann er geðlæknir og starfar einnig að forvörnum og fræðslu hjá Streituskólanum.

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00