Halla Sólveig Sigurgeirsdóttir
Ég sit hér með sorg og söknuð í huga og reyni að koma tilfinningum og minningum í orð um hjartkæra mágkonu mína Höllu Sólveigu Sigurgeirsdóttur, Sollu, sem lést langt fyrir aldur fram 15. desember sl. eftir stutt en snörp veikindi. Ég kynntist Sollu þegar Valur bróðir minn og hún rugluðu saman reytum fyrir nærri 50 árum. Valur og Solla voru strax ákaflega samrýmd og samtaka í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur og innan fjölskyldunnar eru þau alltaf nefnd bæði í einu hvort sem vísað er til annars eða beggja. Solla var falleg og glæsileg kona, fagurkeri, vingjarnleg, glaðvær, hljóðlát, hjartahlý, þolinmóð og hafði einstakt lag á börnum. Þrátt fyrir rólegt fas var stutt í grallarann og hláturinn í Sollu og keppniskonuna sem kom sterkt fram þegar spilaður var kani og fleiri borðspil og einnig þegar kom að íþróttum og þá sérstaklega handbolta og fótbolta og Þór á Akureyri var annað liðið.
Solla æfði sjálf og keppti í handbolta með Þór á unglingsárum og fram undir tvítugt eða þar til hún og Valur eignuðust sitt fyrsta barn, Elvar Knút. Solla og Valur æfðu og kepptu bæði í handbolta undir merki Þórs á Akureyri áður en þau fluttu til Reykjavíkur þegar Valur hóf í nám við HÍ.
Valur og Solla fluttu aftur heim til Akureyrar 1985 og áttu heimili þar síðan. Solla var einstaklega þægileg og gestrisin heim að sækja. Ég minnist ótal heimsókna okkar fjölskyldunnar til þeirra á ferðum okkar til Akureyrar vetur sem sumar og var ávallt vel tekið á móti okkur. Einnig minnist ég frábærrar dvalar í sumarbústað við Lagarfljót og ferðar um Austurland með allan krakkaskarann sem og skemmtilegra stunda hjá foreldrum okkar Vals þegar við hittumst í Skurup í Svíþjóð með okkar fjölskyldur.
Solla og Valur eignuðust fjögur börn, Elvar Knút, Sigurgeir, Ingu Lind og Sigrúnu Evu, sem eru stolt foreldra sinna. Barnabörnin eru orðin sjö og eru Val og Sollu afar kær.
Það er ótrúlegt og erfitt og mun taka tíma að meðtaka það að Solla sé ekki lengur annar hlutinn af sterkum bakhjarli og þátttakandi í daglegu lífi fjölskyldunnar.
Elsku Valur, Elvar Knútur, Sigurgeir, Inga Lind, Sigrún Eva og fjölskyldur, ykkar missir er mikill. Við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Við kveðjum Sollu með miklum söknuði og þökkum fyrir samfylgdina í gegnum liðin ár.
Sigmar (Simmi), Svandís og fjölskylda