Halla Sólveig Sigurgeirsdóttir
Nú eru 19 ár síðan Elvar minn kynnti mig fyrir foreldrum sínum. Strax við fyrstu kynni var auðséð hversu samheldin Solla og Valur voru sem hjón og börnunum sínum góðar fyrirmyndir.
Solla var sönn fjölskyldumanneskja. Hún lagði mikið upp úr samverustundunum og var ævinlega umhugað um að öllum liði vel. Strákarnir okkar hafa alltaf beðið með eftirvæntingu að komast í notalegheitin hjá ömmu og afa í Sunnuhlíðinni. Þau hafa verið þeim svo hlý og góð og áhugasöm um allt sem þeir taka sér fyrir hendur. Solla var góð tengdamamma og reyndist mér ætíð vel. Það var auðvelt að tala við hana og við tvær gátum rætt allt milli himins og jarðar, hversdagslega hluti eða alvarlegri mál. Hún var ávallt tilbúin til að hlusta og miðla af reynslu sinni þegar við átti. Sá eiginleiki hefur komið að góðum notum í starfi hennar í bankanum. Það er næsta víst að ófáir viðskiptavinirnir hafa séð eftir Sollu þegar hún lét af störfum, enda var hún einstaklega indæl og þægileg í samskiptum. Það var líka stutt í húmorinn hjá Sollu og við hlógum mikið saman.
Solla var svo sannarlega glæsileg kona. Árin virtust ekki setja mark sitt á hana eins og okkur hin. Hún var alltaf svo smekklega til fara, með dökka hárið fallega greitt og neglurnar oftar en ekki lakkaðar. Hún var fagurkeri sem vildi hafa huggulegt í kringum sig og ber heimili þeirra hjóna þess glöggt merki. Solla var líka dásamlega pjöttuð og lítið gefin fyrir sull og óhreinindi. Við göntuðumst með það í fjölskyldunni að börnin þeirra Sollu og Vals væru öll með minnst þrjár tegundir af ofnæmi því heimilið var alltaf svo hreint.
Solla var meðvituð um heilsusamlegt líferni og mataræði. Hún stundaði reglulega hreyfingu og nú síðustu ár áttu hjólreiðar allan hug þeirra hjóna. Solla og Valur kunnu að njóta lífsins og höfðu unun af að ferðast, jafnt innanlands sem utan. Í gegnum árin hafa þau farið víða um heim, og þá voru þau líka dugleg að ferðast um landið með hjólhýsið í eftirdragi. Síðastliðin sumur hafa Ari og Atli farið með ömmu og afa í útilegu í Ártún þar sem þau stjönuðu við þá í hvívetna. Þeim varð tíðrætt um hversu góður maturinn hafi verið og að amma hafi reitt fram hverja veislumáltíðina á fætur annarri í útilegunni. Solla var algjör töfrakona í eldhúsinu. Nú á jólum verður mér hugsað til þess hvernig hún töfraði fram ótal smákökusortir, bollur, snúða, kökur, heilu máltíðirnar og eftirrétti að því er virtist fyrirhafnarlaust. Ég bæði furðaði mig á og dáðist að því hvernig hún fór að þessu. Svo var hún líka nýjungagjörn og óhrædd við að prófa nýjar uppskriftir. Það var ófáum sinnum sem við bárum saman bækur okkar, skiptumst á uppskriftum og ræddum um mat.
Mikið óskaplega eigum við eftir að sakna Sollu. Mér þykir óendanlega sárt til þess að hugsa að börnin okkar fái ekki að alast upp með hana innan seilingar en á sama tíma er ég þakklát fyrir þann gæðatíma sem við fengum með henni, og að við eigum ótal góðar minningar um Sollu til að hlýja okkur við.
Takk fyrir allt og allt, elsku Solla mín.
Anna Margrét