Halla Sólveig Sigurgeirsdóttir
Solla tengdamóðir mín var með einstaklega góða og notalega nærveru. Öllum leið vel í kringum hana og ég man ekki eftir því að hún hafi nokkurn tímann skipt skapi, hvað sem gekk á eða jafnvel þótt húsið hafi oft verið fullt af fólki, fullorðnum jafnt sem börnum. Þegar ég og Inga Lind vorum að kynnast fann ég strax fyrir því hjá tilvonandi tengdaforeldrum mínum að ég væri velkominn, þessa hlýju og væntumþykju. Það var líka sérstaklega gott að koma norður til Sollu og Vals í Sunnuhlíðina, en annarri eins gestrisni hef ég ekki kynnst. Eiginlega var boðið upp á veisluborð í hvert mál, sama hvort það voru bara við Inga Lind í heimsókn með strákana okkar eða öll systkinin með öll sín börn. Maður fann alltaf fyrir ást og hlýju, vissi að maður væri velkominn, og yfirleitt var búið að fylla ísskápana með einhverju sem ég hafði minnst á í framhjáhlaupi að mér þætti gott, jafnvel mörgum árum áður. Solla elskaði börnin sín og barnabörnin svo mikið að það var nánast áþreifanlegt. Ég hef undanfarna daga hugsað um að lífið sé stundum óskiljanlegt og ósanngjarnt, en ég ætla frekar að hafa þessa skilyrðislausu ást Sollu sem fyrirmynd í mínu lífi.
Magnús Ágústsson