Fara í efni
Minningargreinar

Gylfi Guðmarsson

Í dag 20. febrúar kveðjum við okkar góða vin og félaga Gylfi Guðmarsson. Hann lést fimmta febrúar síðast liðinn eftir stutt veikindi.

Kynni okkar Gylfa hófust fyrir um það bil 40 árum þegar ég hóf störf hjá honum í Véladeild KEA. Mjög gott var að vinna með honum og urðum við fljótt góðir vinir. Eftir að hafa unnið í nokkur ár með honum skildu leiðir okkar eins og gengur. Ég skipti um vinnu og samskipti okkar urðu lítil um tíma, en fyrir um það bil tuttugu árum hittumst við á förnum vegi og tókum spjall saman. Hann spyr hvor við ættum ekki að kaupa okkur bát saman, við höfðum átt báðir báta en vorum þegar þetta var bátalausir. Það varð úr að við fórum að leita af hentugum bát. Sunna kona mín fann svo bát auglýstan í Kópavogi sem við fórum og skoðuðum og festum kaup á. Bátinn flytjum við norður og fengum inni fyrir hann í gömlum bragga yfir veturinn til að gera hann upp, þar sá ég hvað Gylfi var laginn að smíða, það lá mjög vel fyrir honum og hvað hann var vandvirkur smiður.

Þegar báturinn var sjósettur kom fram smá bilun í stjórnbarka í gír og við að missa hann upp í grjót, Gylfi var laginn að koma með mörg kjarnyrt blótsyrði þegar á bjátaði, þetta var eitt af þeim skiptum, við sluppum með skrekkinn. Það má segja að fall sé fararheill því þetta var upphaf að nítján ára samstarfi okkar og vináttu í kringum bátinn okkar. Öll þessi ár féll aldrei skuggi á okkar samstarf, okkur gekk mjög vel að vinna saman, brasa við bátinn eða fara á veiðar. Við vorum ekki búnir að eiga bátinn lengi þegar ég rekst á auglýsingu að verbúð sé til sölu, ég læt Gylfa vita. Ekki líður langur tíma þar til hann afhendir mér lykil að verbúð. Hann var búinn að festa kaup á henni og þar komum við okkur upp aðstöðu við að vinna úr aflanum.

Fáa menn hef ég þekkt eins bóngóða og til í að hjálpa og aðstoða. Fyrir nokkrum árum kaupi ég verbúð og hann varð sjálfkrafa yfirsmiður og stjórnaði breytingum á henni. Í kringum 2009 gekk hann til liðs við Hollvini Húna II og kom kunnátta hans vel við að varðveita og halda við þeim gamla og fallega eikarbát. Hann sat í stjórn Hollvinafélags Húna II í mörg ár ásamt því að vinna ómælt við viðhald og vera einn af fastri áhöfn Húna. Það var ekki síst fyrir hans orð að ég gekk til liðs við Hollvina Húna II. Í félagsskapnum um borð í Húna sá ég hvað hann var virtur og ávallt leitað til hans varðandi viðhaldi á tréverki.

Gylfi Guðmarsson var vinur vina sinna, greiðvikinn með afbrigðum. Það er með miklum söknuði sem við hjónin kveðjum þennan góða vin og samstarfsaðila í útgerðinni okkar.

Kæru Arnheiður, Dúddi, Unnur, Gulli, Eyþór og fjölskyldur við Sunna sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Gunnar Sturla Gíslason og Sunna Árnadóttir

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01