Gunnþóra Árnadóttir
Gunnþóra Árnadóttir (Dúlla) fæddist á Akureyri 29. mars 1932. Hún lést á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri, 25. desember 2022. Útför Gunnþóru fór fram frá Akureyrarkirkju 10. janúar.
_ _ _
Gulli og perlum að safna sér
sumir endalaust reyna.
Vita ekki að vináttan er
verðmætust eðalsteina.
Gull á ég ekki að gefa þér
og gimsteina ekki neina.
En viltu muna að vináttan er
verðmætust eðalsteina.
Hjálmar Freysteinsson
Elsku amma, nafna mín, vinkona og fyrirmynd í lífinu. Þú stóðst með mér frá degi eitt og allt til síðustu stundar. Tókst á móti mér með fallega brosinu þínu og hlýjum faðmi. Ég á ótal margar minningar um okkur að brasa eitthvað saman enda var ég alltaf hjá ykkur afa. Hvort sem það var að baka, breyta, göngutúrar, ferðalög, gróðurhúsið, bíltúrar, vinna í sjoppunni eða vera bara heima í kósý. Þú gerðir allt fyrir mig, flysjaðir epli og leyfðir mér að borða flusið af því að það er best.
Þú hughreystir mig og gafst mér ráð. Þolinmæðin þrautir vinnur allar sagðir þú alltaf við mig en þolinmæði var ekki eitthvað sem ég fékk mikið úthlutað af í vöggugjöf. Þegar við systur vorum í pössun hjá þér og þú hafðir ákveðið að við færum í heimsókn seinna um daginn reyndir þú að tala undir rós svo ég fattaði ekki neitt. „Við skulum ekki segja stuttu frá þessu stelpur.“ Þá heyrist í mér „dutta heiti ekki dutta“ ég fattaði sko alveg að það var verið að tala um mig innan við tveggja ára gömul. Þér leiddist nú ekki að segja þessa sögu af óþolinmóðu nöfnu þinni.
Við tvær vorum bestu vinkonur og einu sinni sagði ég við þig að allir héldu að við værum systur. Þetta leiddist þér nú ekki. Mér fannst amma alltaf fallegust og mesta pæjan og hún mátti vera í pilsi alla daga. Ef þið afi komuð í heimsókn og ég mátti ekki vera í pilsi fór ég í fýlu af því að þú varst meiri pæja en ég. Fermingarferðin mín með ykkur afa til Spánar var ógleymanleg. Þegar við skelltum okkur til Afríku og maðurinn kom og spjallaði við þig. Þú hélst að hann væri að spyrja hvað ég væri gömul og sagðir hátt og snjallt „fourteen“. Maðurinn hugsaði sig um pínu stund og sagði svo „Yes I´ll take her“ Hann hafði sem sagt verið að spyrja þig hvað þú vildir fá marga úlfalda fyrir mig. Skemmst er frá því að segja að við eyddum restinni af skoðunarferðinni tvær inni í rútu.
Hjá ykkur afa átti ég öruggt skjól og fyrir stundirnar okkar er ég óendanlega þakklát. Ég spjallaði við afa og bað hann að taka vel á móti þér sem ég efast ekki um að hann hafi gert. Hann hefur mögulega verið með eins og einn eða tvo jólasveina með hljóðum. Ég verð endalaust þakklát fyrir það að hafa átt ykkur afa að, einstakar manneskjur báðar tvær. Síðasta símtalið okkar geymi ég í hjarta mínu enda var svo dýrmætt að geta spjallað við þig eins og í gamla daga.
Þúsund þakkir fyrir allt sem þú hefur gefið mér elsku gullmolinn minn.
Kveðja frá hjartablóminu þínu.
Gunnþóra Ingvadóttir