Gísli Jónsson
Í dag kveðjum við kæran vin okkar, Gísla Jónsson, sem nýlega er látinn. Höfum átt samleið með honum í tugi ára og hefur hún bæði verið sérstök og lærdómsrík. Þar rísa sjálfsagt hæst einstök bönd sem tengt hafa okkur saman á nær hverjum degi vikunnar í gegnum árin og orðið hafa að föstum lið í tilverunni. Þá er átt við það að við bundum það fastmælum að byrja daginn með því að hittast, fá okkur kaffisopa og ræða landsins gagn og nauðsynjar. Við sem sitjum þessa kaffifundi nú erum í raun arftakar þeirra, sem hófu þessa venju á fimmta áratug síðustu aldar þannig að ræturnar eru langar og sterkar.
Gísli var borinn og barnfæddur á Akureyri 18. júní árið 1945 og bjó þar að undanskildum fjórum árum sem hann bjó og starfaði í Reykjavík. Hingað kominn aftur tók hann við rekstri föður síns sem m.a. var Ferðaskrifstofa Akureyrar og Sérleyfisbílar Akureyrar. Þá sýndi Gísli vel hvað í honum bjó, því hann efldi þann rekstur og færði út kvíarnar á hinum ýmsu sviðum. Má þar sérstaklega nefna Happdrætti Háskóla Íslands, en einnig umboð fyrir Heimsferðir, Tryggingamiðstöðina og Happdrætti DAS. Gekk allt þetta með miklum sóma enda var hann góður stjórnandi og sýndi jákvætt viðmót í öllum samskiptum og heiðarleika. Gísli dró sig út úr þessum rekstri árið 2008 fyrst og fremst vegna veikinda.
Í veikindunum sýndi Gísli kjark. Frá upphafi gerði hann sér að fullu ljóst í hvað stefndi og tók hann því af miklu æðruleysi. Hann kvartaði aldrei. Ekki bætti heldur úr skák að hans yndislega eiginkona, Þórunn Kolbeinsdóttir, var einnig haldin ólæknandi sjúkdómi og lést hún á síðasta ári.
Eins og áður segir höfum við félagarnir átt langa og góða samferð um árabil.
Fyrir þetta erum við þakklátir. Með þessum orðum þökkum við Gísla fyrir allt sem hann lagði með sér og hvernig hann lífgaði upp á mannskapinn með sinni nærveru. Mun hans verða sárt saknað.
Um leið og við biðjum Gísla Guðs blessunar sendum við fjölskyldu hans og ástvinum innilegar samúðarkveðjur.
Birgir Björn Svavarsson
Gísli Bragi Hjartarson
Gunnar Ragnars
Hallgrímur Arason
Hermann Haraldsson
Sigurður Jóhannesson
Vilhelm Ágústsson
Þórarinn B. Jónsson