Friðbjörn Axel Pétursson
Friðbjörn Axel Pétursson lést 14. janúar síðastliðinn. Útför hans verður frá Grenivíkurkirkju í dag, föstudaginn 24. janúar.
Hvað boðar nýárs blessuð sól? Flest ef ekki öll fögnum við nýju ári með gleði og eftirvæntingu um að hið nýja ár verði okkur öllum farsælt. Fyrstu dagar nýs árs voru afar fallegir og lofuðu góðu en þann 14. janúar var stórt skarð höggvið í okkar góða vinahóp. „Enginn veit sína ævi fyrr en öll er,“ segir máltækið, það eru orð að sönnu. Elsku Bjössi, einstakur vinur okkar var kallaður til æðri tilverustiga og annarra verkefna, alltof snemma. Margs er að minnast og margt ber að þakka er við kveðjum Bjössa í Grenimel.
Hann var mikill Grenvíkingur, fæddur og uppalinn þar. Sum okkar þekktum hann alla tíð, ólust upp með honum, vorum skólafélagar, liðsfélagar í Magna, samstarfsfélagar og afar góðir vinir. Bjössi var með eindæmum skemmtilegur og fyndinn. Hann var hrókur alls fagnaðar, var miðpunkturinn í öllum okkar partýum og samverustundum, alltaf til í glens. Hann var einstaklega orðheppinn og snöggur til svars. Margt sem Bjössi sagði gat verið svo ógurlega fyndið þegar hann sagði það, hefði einhver annar sagt nákvæmlega það sama hefði það líklega ekki verið svo fyndið. Hann hafði afar góðan frásagnarhæfileika og átti það til að henda stundum í skondnar rímur.
Bjössi hafði mikinn áhuga á fótbolta og var Manchester United maður fram í fingurgóma og grjótharður Magna maður. Það heyrðist þegar Bjössi var á vellinum en að eðlisfari var hann þessi ljúfi maður.
Nú skilja leiðir að sinni kæri vinur, þín verður sárt saknað. Við tökum lagið sem við vorum búin að syngja ansi oft saman í gegnum árin:
Góða ferð, góða ferð, góða ferð
góða ferð já það er allt og síðan bros
því ég geymi alltaf vinur það allt er gafstu mér
góða ferð, vertu sæll já góða ferð.
Láttu fara vel um þig í sumarlandinu. Við félagar þínir í Kenderískompaníinu lyftum glösum og þökkum þér yndislega samfylgd og vottum börnum þínum Erlu, Jóni Geir, Bergsveini Ingvari, Pétri Trausta og fjölskyldum, Sólveigu, systkinum og öðrum ástvinum innilegrar samúðar á þessum erfiða tíma. Blessuð sé minning þín.
Heimir og Ólöf,
Hermann og Ragnheiður,
Þorsteinn og Sigríður,
Þórður og Sigrún.