Eyjólfur Ágústsson
Við vissum í hvað stefndi. Gerðum okkur vel grein fyrir að bróðir okkar þyrfti að lokum að lúta í lægra haldi fyrir þeim óvægna sjúkdómi sem krabbameinið er. Baráttan var snörp en háð af æðruleysi og drenglyndi, að hætti Eyfa. Þegar kallið kemur er það alltaf jafn sárt og þungbært. Eyfi átti svo mikið eftir, að lokinni farsælli starfsævi. En að því er ekki spurt, það er gömul saga og ný að við stórum spurningum fást ekki svör æðri máttarvalda.
Eyfi var yngstur okkar fimm bræðra og var skírður í höfuðið á Eyjólfi föðurbróður og Steini föðurafa okkar. Hann fæddist í Hátegi í Innbænum en var á öðru ári þegar við fluttum með foreldrum okkar í Ránargötu 10. Uppvaxtar- og þroskaárin voru því á Eyrinni. Stutt var á moldarvöllinn austan Akureyrarvallar, þar sem sparkað var í bolta frá morgni til kvölds. Teningnum var kastað og fátt komst annað að en fótboltinn. Snemma komu í ljós hæfileikar Eyfa í boltanum, mikill leikskilningur og dugnaður. Hann spilaði ófáa leikina með KA á ferlinum og einnig var hann í ÍBA-liðinu, m.a. þegar bikarinn vannst árið 1969. Annar ekki síður eftirminnilegur leikur sem Eyfi tók þátt í var á Akureyrarvelli 5. ágúst 1982 þegar KA tók á móti stórveldinu Manchester United. Eyfi fór fyrir sínum mönnum sem fyrirliði en Ray Wilkins leiddi sína menn til leiks. KA fékk að vísu sjö mörk á sig en skoraði eitt gegn Rauðu djöflunum, það gerði Eyfi úr vítaspyrnu undir lok leiksins. Þessi leikur var honum að vonum eftirminnilegur enda heimsfrægir leikmenn í hverri stöðu í liði United.
Þegar ferlinum í KA og ÍBA sleppti var þó ekki nema hálf sagan sögð. Þá tók við alvöru knattspyrna í hinu goðsagnakennda liði Early Sunrise, sem heldur betur markaði sín spor í knattspyrnusögu norðan heiða. Til þess að halda góðu líkamlegu atgervi yfir vetrarmánuðina voru stífar skallaboltaæfingar.
Síðar heillaðist Eyfi af golfinu og átti margar ánægjustundir á golfvöllum hér á landi og erlendis. Hann var náttúrubarn og naut þess einnig að stunda laxveiðar í góðra vina hópi í Skjálfandafljóti og Blöndu.
Eyfi lærði prentverk í POB og starfaði í því fagi í nokkur ár. Fljótlega eftir að við eldri bræðurnir hófum rekstur Hölds leituðum við til Eyfa um að taka að sér sölu nýrra bíla. Sala nýrra og notaðra bíla var síðan hans starfsvettvangur allt þar til hann lét af störfum hjá Höldi árið 2019. Eyfi leysti sín störf af mikilli trúmennsku og var ómetanlegur hlekkur í okkar fyrirtæki, sem við fáum seint fullþakkað.
Sárt er að kveðja en góðu minningarnar ylja. Að leiðarlokum þökkum við Eyfa bróður fyrir allt sem hann var okkur öllum.
Siggu mágkonu, Skúla syni þeirra og fjölskyldu og öllum öðrum ástvinum vottum við innilega samúð okkar.
Villi, Biggi og Skúli