Fara í efni
Pistlar

Efnilegur þessi strákur!

ORRABLÓT - VIII

Varamannaskýli á fótboltavöllum eru óþrjótandi uppspretta gamansagna.

Vorið 1988 komu Skagamenn í heimsókn norður og öttu kappi við Þórsara á grasvelli Þórs. Liðið lék að vísu heimaleiki sína á Akureyrarvellinum á þeim árum en hann var yfirleitt aldrei úrskurðaður tilbúinn fyrr en í ágúst. Sjálfur var ég þarna í 2. flokki og fékk það hlutverk að sinna gæslu við varamannaskýli gestanna; vissi svo sem aldrei hvað ég átti nákvæmlega að gera en það er annað mál, þetta voru nýjar reglur frá KSÍ. Þannig að ég stóð bara þarna eins og staur.

Alltént. Karl Þórðarson, einn flinkasti knattspyrnumaður Íslandssögunnar, hafði tekið fram skóna að nýju eftir nokkurra ára hlé og var í liði Skagamanna. Snemma leiks var hann með knöttinn í námunda við varamannaskýlið og ungur, ágengur og ástríðufullur leikmaður í liði Þórs, Ólafur Þorbergsson, ákvað að gera atlögu. Ætlaði nú aldeilis að sýna þessum gamla karli hvar Davíð keypti ölið og bjóða hann velkominn í Þorpið.

Skagamaðurinn Karl Þórðarson og Ólafur Þorbergsson Þórsari.

Hjartað í mér stöðvaðist þegar Óli renndi sér fótskriðu; ég sá hann fyrir mér senda aumingja Karl, sem er smávaxinn maður og léttur, alla leið yfir í Vaðlaheiði. En hvað var a‘tarna? Karl lék knettinum bara létt áfram, hoppaði síðan eins og að drekka vatn upp úr tæklingunni og Óli rann sem leið lá framhjá varamannaskýlinu á ofsalegri ferð og endaði, að mig minnir, á hryggnum niðri á malarvelli. Karl glotti á hinn bóginn við tönn og mælti við félaga sína á bekknum: „Hann er efnilegur, þessi strákur!“

Ég hygg að Óli hafi lært af þessu; hann var ekki leikmaður sem gerði sömu mistökin tvisvar.

Önnur óborganleg saga tengist sama varamannaskýli; þessu gamla appelsínugula á Þórsvellinum, sem allir muna eftir! Ætli það hafi ekki verið einu eða tveimur árum síðar.

Maður er nefndur Rósant Már Torfason, dásamlegur drengur og mikið fjármálaséní en ekki endilega besti knattspyrnumaðurinn í hverfinu. Hann var vanur bekkjarsetu í 2. flokki og ekki mikið í því að koma inn á í leikjum, raunar svo lítið að í einum leiknum miðjum dró hann úr pússi sínu rækjusamloku og byrjaði að gæða sér á henni á bekknum. Gunnari Gunnarssyni þjálfara, Gassa, var að vonum brugðið en uppátækið var svo framúrstefnulegt og óvænt að hann hafði ekki hjarta í sér til að taka Rósant til bæna. Ég meina, hverjum dettur svona lagað í hug?

Þórsarar á góðri stund í varamannaskýlinu; þó ekki því gamla appelsínugula sem Orri nefnir, eins og glöggir lesendur sjá. Til hægri er Gunnar „Gassi“ Gunnarsson, KA-maðurinn sem þjálfaði Orra og félaga í 2. flokki á sínum tíma.

Bara snillingum.

Þetta vakti að sjálfsögðu mikla kátínu meðal félaga Rósants og fór sagan á mikið flug. Einu sinni var hún sögð í fjölmenni að Rósanti sjálfum viðstöddum. Þá hnippti hann raunar í sögumann og leiðrétti. „Þetta var ekki rækjusamloka, hún var með hangikjöti og salati!“

Það breytti auðvitað öllu.

Sjálfur á ég mitt kinnroðaaugnablik af varamannabekknum. Það var að vísu ekki á Þórsvellinum, heldur Valsvellinum á Hlíðarenda. Það var leikur í 2. flokki og sú ógæfa helltist yfir mig í upphitun að sólinn rifnaði nær alveg undan öðrum skónum. Ég lét þó sem ekkert væri enda á bekknum – en vonaði aldrei þessu vant innilega að ég yrði ekki settur inn á.

Nema hvað. Eftir um 20 mínútna leik fékk Árni Þór Árnason, minn gamli bekkjarbróðir úr Glerárskóla, steinsmugu og þurfti að koma með hraði af velli. „Orri, inn á!“ galaði Gassi.

Nú voru góð ráð dýr. Ég óupphitaður og skólaus í þokkabót. Ekki vildi ég þó bregðast liðinu og Gassa og það eina sem mér datt í hug var að hlaupa á eftir Árna og stöðva hann.

„Árni, mig vantar skó!“

„Ha, vantar þig hvað?“

„Skó!“

Árni Þór Árnason rauðklæddur löngu eftir leikinn á Valsvellinum; myndin er tekin á HM í Rússlandi árið 2018.

Árni horfði á mig tómum augum en hafði engan tíma til að velta þessari þvælu fyrir sér, þannig var komið um iðrin. Hann sparkaði því bara af sér skónum og hljóp eins og fætur toguðu á sokkaleistunum beint á dolluna. Þarna kom sér vel að Árni er líklega mesti tófusprengur sem ég hef kynnst um dagana.

Þar með var björninn þó ekki unninn fyrir mig. Árni notar nefnilega á að giska þremur númerum minni skó en ég. En það var enginn tími til að hugsa, ég reimaði því bara á mig skóna og hljóp inn á – með krepptar tær. Hef ekki hugmynd um hvað fór gegnum höfuðið á Gassa. En hann var svo sem orðinn ýmsu vanur.

Ég hef átt betri leiki.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega.

Undurhrif tónlistarinnar

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
28. janúar 2025 | kl. 06:00

Útvíðar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
27. janúar 2025 | kl. 11:30

Gosdrykkjan

Jóhann Árelíuz skrifar
26. janúar 2025 | kl. 11:00

Seldi upp án þessa að missa úr skref

Orri Páll Ormarsson skrifar
24. janúar 2025 | kl. 13:00

Fuglaskógar

Sigurður Arnarson skrifar
22. janúar 2025 | kl. 10:00

Davíð Stefánsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
21. janúar 2025 | kl. 13:30