Fara í efni
Pistlar

Útvíðar

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 64

Það voru ekki minna en kaflaskil í menningarsögu Norðurlands þegar nýju fötin heimstískunnar tóku að berast yfir meginöræfin og steypa sér ofan í þrönga dali Eyjafjarðar. Og ýmist var að gamla gengið tók andköf yfir frjálslegu sniðinu, eða að unga liðið æstist allt hvað af tók þegar breytingin blasti við í búðarglugga Amaro og Sesars, sem þóttu taka Kaupfélaginu fram í glans og glæsileika.

Allt í einu mátti klæðast litum. Svört jakkaföt með lakkrísbindi voru ekki lengur eini aðgangurinn að Sjallanum, heldur flannel og flauel, og skyrturnar gátu allt eins verið fjólubláar eða okkurgular, hvað sem það nú var, og það var heldur ekkert bindi utan um háls á karlmanni nema það væri með blómaskrauti eða jafnvel höfrungamynstri, frjálslega bundið um breiðan kragann.

En mestu munaði um buxurnar. Þær urðu útvíðari með hverju misserinu af öðru. Það mátti heita að strákarnir á Syðri-Brekkunni sveifluðu pilsum um læri og legg þegar þeir gengu hjá í þessum líka lostafulla klæðnaði, en málið var að hafa þetta þröngt um læri en vítt um ökkla.

Sem þótti smart.

Undir faldinum voru svo skórnir, sem þykknuðu álíka mikið og skálmarnar víkkuðu á þessu villta skeiði þegar nútíminn var farinn að storka afturhaldinu og veifa því fingur. En þeir hétu háhæla. Marglagabotna. Og voru á næstu tímum ekkert annað en upphækkun okkar krakkanna, sem voru komnir á stilka, hvar sem við fórum, ásamt þessum breiðum buxum sem stóðu út frá leggjunum eins og þjóðfáni við hún á hvössum vordegi lífsins.

En meginmálið var að hafa almennilegt brot í buxunum. Það hét að stífa þær í stílinn. Og mun þar vera kominn ástæða þess að kynslóð mín á Akureyri, lærði það jafn áköf og hún var ung, að mesta þarfaþingið á heimilinu væri straubretti.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: MARENGS

Undurhrif tónlistarinnar

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
28. janúar 2025 | kl. 06:00

Gosdrykkjan

Jóhann Árelíuz skrifar
26. janúar 2025 | kl. 11:00

Seldi upp án þessa að missa úr skref

Orri Páll Ormarsson skrifar
24. janúar 2025 | kl. 13:00

Fuglaskógar

Sigurður Arnarson skrifar
22. janúar 2025 | kl. 10:00

Davíð Stefánsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
21. janúar 2025 | kl. 13:30

Selshreifar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. janúar 2025 | kl. 11:30