Fara í efni
Minningargreinar

Björk Elva Brjánsdóttir

Það er með miklum söknuði sem ég skrifa þessi orð um elsku systur mína sem kvaddi okkur á öðrum degi jóla eftir erfið veikindi en við fylgjum henni síðasta spölinn í dag. Það er skrítið að sitja eftir og rifja upp allar minningarnar og hvað hún var stór hluti af lífinu. Það er erfitt og sárt að þessum kafla sé lokið en minningarnar um Björk eru óteljandi og af nógu að taka. Kannski svolítið táknrænt fyrir hana sem var mikið jólabarn að kveðja á þessum tíma en jafnframt svo nístandi ósanngjarnt en þau veikindi sem hrjáðu hana gefa engan grið. Baráttuþrekið var mikið en þrekið þvarr eftir 2ja ára baráttu og þessi mikla baráttumanneskja þurfti undan að láta.

Björk var ekki gömul þegar hún tók að sér að ala önn fyrir böldnum yngri bróður og passaði mig af mikilli samviskusemi og létti sannarlega undir heimilishaldinu á meðan foreldrar okkar unnu sinn starfsdag. Björk var fljót að finna til ábyrgðar, hún sinnti barnapíustörfunum af mikilli kostgæfni og það breyttist ekki mikið þó árin hafi liðið og að mörgu leyti sinnti hún þeim störfum löngu eftir að ég komst á fullorðinsár.

Það lá líka snemma fyrir henni að vera meira í þjónustuhlutverkinu en hún byrjaði ung að vinna hjá KEA og starfaði bæði í verksmiðjum fyrirtækisins og einnig verslunum, hún hafði mikla ánægju af verslunarstörfum og ekki síður talsverðan verslunaráhuga. Síðustu árin starfaði Björk á hjúkrunarheimilinu Hlíð en það starf átti vel við hana og henni þótti afskaplega vænt um íbúa Hlíðar.

Það var eitt hennar mesta lán þegar hún mætti dag einn í Rauðumýrina með ungan sjómann ættaðan frá Hauganesi en þar var kominn tilvonandi eiginmaður hennar, Angantýr Arnar Árnason sem átti eftir að fylgja henni gegnum lífið eða í um 45 ár. Fyrstu árin bjuggu þau á Hauganesi og þar byggðu þau sér fallegt heimili en síðar fluttu þau búferlum til Akureyrar og bjuggu fyrstu árin í Kringlumýri en byggðu sér síðar heimili í Stekkjartúni. Björk og Arnar eignuðust 3 drengi en Arnar gekk Fannari Þór, þeim elsta, í föðurstað en síðar eignuðust þau saman þá Egil Daða og Árna Brján. Þeir hafa erft helstu mannkosti þeirra hjóna og eru dugnaðarforkar. Barnabörn Bjarkar eru orðin 6 og hafa þau fært henni ómælda hamingju, einnig hefur hún tekið tengdadætrunum opnum örmum. Björk var mikil barnagæla og hefur í gegnum tíðina tengst krökkunum í fjölskyldunni sterkum böndum og haldið miklum vinskap við þau. Hún á að minnsta kosti 2 nöfnur og þegar dóttir mín kom í heiminn kom ekkert annað til greina en að nefna hana í höfuðið á frænku sinni og man ég að henni þótti afskaplega vænt um það, ég er viss um að Bjarkarnafnið verður í hávegum haft í fjölskyldunni framvegis.

Heimili Bjarkar bar þess ávallt merki að hún var mikill fagurkeri og vildi hafa fallega hluti í kringum sig. Hún hafði óskaplega gaman af því að taka á móti gestum og að fá fólk í kaffi og taka helstu tíðindin, hún var félagsvera og vildi vera þar sem fjörið var. Hún var sjálfstæð enda þurfti hún oft að sinna flestum hlutum heima fyrir þar sem ævistarf Arnars var sjómennskan.

Það skiptast auðvitað á skin og skúrir í lífi allra og Björk fékk sinn skerf af mótlæti því rétt fertug veiktist hún og fékk blóðtappa en með þrautseigju og baráttu náði hún sér þó ótrúlega vel. Hún systir mín var sóldýrkandi og kunni vel við sig á sólarströnd, hafði gaman af því að ferðast enda gerðu þau hjónin talsvert af því. Hún var gædd ágætis söngrödd og söng með kirkjukór en seinni árin færði hún sig í félagsmálin og starfaði með kvenfélagi Akureyrarkirkju á meðan kraftar leyfðu.

Björk systir mín var einhvern veginn alltaf til staðar og var límið sem hélt tilverunni saman að svo mörgu leyti. Hún var tilfinningarík og sagði óhikað meiningu sína hvort sem fólki líkaði það vel eða illa og oftar en ekki hitti hún naglann á höfuðið og vakti mann til umhugsunar um hin ýmsu mál. Hún mátti ekkert aumt sjá og hafði ríka réttlætiskennd. Það var alltaf gott að eiga hana að, á mínum verstu stundum og ekki síður á bestu stundunum því hún átti líka auðvelt með að samgleðjast fólki. Ég gæti efalaust haldið lengi áfram að skrifa um Björk því lífshlaup okkar er að svo mörgu leyti samofið. Söknuðurinn er mikill og það er ósanngjarnt að kona á besta aldri sé tekin frá okkur en góðar minningar og góðar hugsanir hjálpa til. Ég er þess fullviss að afkomendur Bjarkar koma til með að halda minningu hennar á lofti. Nabban þín minnist þín með mikilli hlýju og ætlar að hugsa til þín elsku systir.

Hafðu bestu þakkir fyrir allt og allt elsku besta.

Þráinn

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01