Fara í efni
Minningargreinar

Þór Sigurðsson

Þór Sigurðsson var ekki búinn að vera lengi starfandi á Minjasafninu á Akureyri þegar húsið fór að nötra. Ekki svo að skilja að þar hafi lunderni hans verið um að kenna. Ljúfari maður er vandfundinn. Nei, hvort sem Þór var að setja upp ljósmyndasýningu eða sinna öðrum verkefnum á safninu var stutt í sönginn. Af neðri hæðinni, jafnvel neðan úr kjallara bárust djúpir tónar frá rödd sem var engri lík. „I was born a wandering Star“ Í kjölfarið kom kannski eitthvað rússneskt kórlag. Djúp bassaröddin spilaði á járnabindingu hússins við Aðalstræti eins og strengi í kontrabassa. Þvílíkur munaður að fá einkatónleika af og til frá þessum ljúflingi.

Þór var á heimavelli á safninu. Ef einhver var fjölfróður var það hann. Las mikið og var forvitinn. Áhugasamur um fólk en ekki hnýsinn. Hann hafði þann vana að skrifa alltaf eina færslu í dagbókina sína í upphafi dags. Yfirleitt um veðrið en það kæmi ekki á óvart að þar leyndist ein og ein staka, jafnvel hugmynd að draugasögu. Þór var sagnamaður af guðs náð. Ekki síst þegar kom að draugasögum. Það vita þeir sem fengu á að hlýða. Reyndar gleymdi hann stundum stað og stund, jafnvel hver var að hlusta. Í eitt sinn kom hann heldur hnípinn úr Nonnahúsi yfir í Minjasafnskirkjuna eftir einhvern jólahópinn. Þá hafði hann hoppað úr jólasögu yfir í svo magnaða draugasögu að grunnskólabörnin voru skelfingu lostin. Það kæmi okkur ekki á óvart að þau myndu þessa heimsókn ennþá. Líkt og krakkar úr öðrum skólahópum sem hann tók á móti. Þór greip í ýmislegt á safninu, sá um ljósmyndadeildina um tíma, safnfræðslu og húsvörslu. Já og Minjasafnsgarðinn. Þar fannst honum líka gott að vera. „Næstum eins og að vera úti í sveitinni minni“ sagði hann einhvern tímann. Kannski þegar hann hafði einu sinni sem oftar rifið sig úr bolnum, kófsveittur eftir baráttu við kerfil eða orfið.

Þór var stundum laus við tímaskyn. Eins og þegar hann hoppaði í afgreiðsluna af efstu hæðinni til að afgreiða tvo gesti. Eftir dágóða stund fórum við hin að undrast um Þór. Svona rúman klukkutíma. Hann hafði ekki komið upp aftur og ekkert heyrðist úr sýningarsölunum. Þór hafði þá farið með gestina tvo um allt safnið og sýnt þeim hvern hlut og ljósmynd. Sennilega ódýrasta leiðsögn sem þessir ferðamenn hafa keypt sér á ferðalaginu.

Sagnamaðurinn Þór var svo magnaður að draugasögustundir á Minjasafninu urðu að draugagöngu í Innbænum sem stækkaði um of svo úr varð draugaslóð. Þá stóð hann klæddur kufli og þuldi annað hvort mögnuð kvæði eða sagði draugasögur við Friðbjarnarhús. Yfirleitt voru þær sannar. Þær urðu alla vega sprelllifandi hverjum sem á hlýddi.

Þessi myrka rödd og duflið við draugana var alveg á skjön við persónuna Þór sem sá alltaf það góða í öllu og öllum. Vildi hjálpa öllum. Sama á hverju dundi. Þegar hann var í lyfjagjöf, með snúrur hangandi í sér, gladdi hann aðra sem sama var ástatt fyrir með, kveðskap, sögum og söng til að stytta þeim og honum stundirnar. Aðrir sjúklingar voru farnir að biðja um að fá að vera í lyfjagjöf á sama tíma og Þór Sigurðsson.

Við vorum heppin að eiga Þór að sem samstarfsfélaga og vin. Í okkar huga ómar enn þessi djúpa fallega rödd um safnið. Við eigum sannarlega nóg af minningunum til að ylja okkur við.

Fyrir hönd starfsmanna Minjasafnsins á Akureyri,

Haraldur Þór Egilsson,
safnstjóri

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01