Fara í efni
Minningargreinar

Sólveig Kristjánsdóttir

Tengdamamma mín Sólveig Kristjánsdóttir, Dolla, lést á Heilsuvernd Hjúkrunarheimili þann 19. nóvember síðastliðinn 87 ára að aldri. Jarðaförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk ömmu Dollu.

Það eru ekki nema rétt rúmlega tveir mánuðir síðan fjölskyldan kvaddi tengdapabba, Einar Gunnlaugsson. Þannig að stór skörð hafa verið höggvin i fjölskylduna núna á haustdögum.

Það er erfitt að fjalla bara um annað þeirra hjóna í svona minningargrein svo samtvinnað var þeirra líf enda varði sambúð þeirra í um 70 ár.

Frá fyrsta degi náðum við tengdamamma vel saman. Kannski var það vegna þess að hún stjórnaði því sem þurfti á mínu heimili frá fyrsta degi, eins og við strákarnir eigum að sjálfsögðu að eftirláta tengdamömmum að gera. Hún var dásamleg í alla staði, falleg að utan sem innan.

Vildi allt fyrir mig og mína gera hvort sem það var í hennar valdi eða ekki.

Hún sá meira að segja um að reykja (fyrir) okkur öll, algjörlega óbeðin.

Hún hafði skemmtilegan húmor og var „vel“ lesin. Líklega eru fáir Akureyringar betur að sér í svokölluðum fagurbókmenntum sem Jostein, hinn uppáhalds tengdasonurinn, sá um að bera í hana i bílförmum frá Amtsbókasafninu.

Tengdamamma, sem alltaf var kölluð amma Dolla, átti STÓRAN sess í fjölskyldunni, við vorum líka það heppin að búa alla tíð í næsta nágrenni við tengdaforeldra mína og átti hún mikinn þátt í uppeldi dætra minna. Hún sá um þær í tíma og ótíma, veikar jafnt sem frískar. Hafði alltaf pláss fyrir þær í faðmi sinum eða stóra rúminu svokallaða í hinum ýmsu leikjum, lestri, spjalli og úrlausnum hinna ýmsu mála, það voru engin mál of lítil eða of stór fyrir ömmu Dollu.

Amma Dolla var mikil handavinnukona, prjónaskapur, peysur, húfur, vettlingar og einnig allskonar útsaumur, púðar og dúkar ofl. Hún saumaði föt á allan hópinn, hannaði og saumaði öskudagsbúninga og að sjálfsögðu sá hún líka um laga og bæta flíkur. Núna hefur amma Ester tekið við verkefninu. Ekki má gleyma að minnast á öll dúkkufötin sem urðu til og mikið var lagt í.

Á tímabili var leirgerð mikið inn hjá henni og vafðist ekki fyrir henni að útbúa alls kyns fígúrur úr trölladeigi og gaf hún m.a. út bók um efnið með vinkonu sinni.

Líf ömmu Dollu snerist fyrst og fremst um stórfjölskylduna, fylgdist með öllum hvort sem var i leik, starfi eða skóla. Þekkti alla afmælisdaga og passaði vel uppá að allir fengju sitt á þeim dögum. Einnig voru jólin eins og vertíð fyrir hana og stóð sú vertíð nánast á milli hátíða, það fengu allir i stórfjölskyldunni marga pakka, handverk (lina) og einnig harða og það var ekki „bara“ einn af hvorri tegund. Alltaf þusaði tengdapabbi yfir öllum þessum gjöfum en hafði ekki minna gaman af þessu tilstandi. Það verður tómlegt núna um jólin en þau héldum við saman í um 35 ár.

Fyrstu jólin voru reyndar ekkert sérstök ef eingöngu er horft til matargerðarinnar eins og ég kom inná í minningargrein um tengdapabba. Þar sem að mín elskulega tengdamamma átti líka hlut að máli verð ég að koma inná það aftur.

1985

Jólaboðið bar nú að
vandað var til veislu.
Fuglinn á borðið eða hvað?
Alls ekki hæfur til neyslu.

Svangur hélt því heim á leið
hagkvæmt þótti boðið?
Sár og svekktur, undan sveið
færði þeim síðar í soðið.

Í seinni tíð þurfti að vanda tímavalið varðandi heimsóknir í Einilundinn. Þó alltaf væri tekið á móti mér eins og týnda syninum. Sjónvarpsgláp ýmis konar mátti helst ekki trufla og vorum við tengdapabbi ósjaldan sendir fram i eldhús í spjall og vel útilátna hressingu ef spennan var meiri fyrir sjónvarpinu heldur en heimsókninni. Það var aldrei komið að tómum kofanum, nóg til af bakkelsi og það borið á borð og því rennt niður með Fresca eða Sprite Zero, oft goslitlu.

Tengdaforeldrar mínir lifðu góðu lífi heilt yfir, þó aðeins hafi verið farið að halla undan fæti síðustu árin. Eins og gengur þegar aldurinn færist yfir og að bæði tvö hafa verið hvíldinni fegin ætla ég að fullyrða. Börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn telja hátt i 40 þannig að afkomendurnir eru margir og munu svo sannarlega halda merkjum þessara dásamlegu hjóna á lofti um ókomin ár.

Fallegu minningarnar, þar sem er af nógu að taka, munu lifa i hugum okkar allra.

Að brosa i gegnum tárin

Lét ekki eftir sér bíða, ákvörðun tekin
flestir á staðnum, starandi brotnum augum.
Kvölin og pínan horfin, hvíldinni fegin
kemur aftur í formi fallegra drauma.

Við getum ekki annað en brosað i gegnum tárin.
Minningarnar fljóta fallegar hjá
minningar um hjónin, falleg, flott og öll árin.
Minningar um hjónin sem okkur horfðu á
Við getum ekki annað en brosað i gegnum tárin

Ég þakka mikið fyrir samfylgdina öll árin.

Takk fyrir allt og allt, þinn/ykkar tengdasonur,

Nói Björnsson

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00