Ingvi Rafn Jóhannsson
Að þekkja afa var að elska hann. Eitt af því sem ég hef alltaf dáðst að í fari hans var hversu góður hann var að tengjast fólki og hversu hlýr hann var við ókunnuga jafnt sem ástvini sína. Afi var óhræddur við að sýna tilfinningar, sem almennt er sjaldgæft hjá mönnum af hans kynslóð. En við töluðum oft um að það sýndi einmitt styrk – að þora að berskjalda sig og jafnvel fella tár. Það er eitt af því fallegasta sem afi kenndi mér, en langt frá því það eina. Tónlist var órjúfanlegur hluti af afa, og ást hans á henni fengum við í vöggugjöf. Afi kenndi mér að meta klassíska tónlist enda fórum við margoft á slíka tónleika með honum. Afi hvatti mig áfram í tónlistarnámi – já og bara öllu öðru sem man tók sér fyrir hendur. Hvort sem það voru tónleikar, dans- eða leiksýningar, þá var afi mættur á fremsta bekk. Afa leið best með allt fólkið sitt í kringum sig. Það er eitt að eiga stóra fjölskyldu en annað að eiga svo náin og falleg tengsl við ættingja sína. Afi lagði mikið upp úr því og ég er honum þakklát fyrir það. Afi var alvöru partípinni og alltaf til í bullið – hví ekki að spila „beer pong“ með barnabörnunum á gamlárskvöld? Afi kenndi mér nefnilega að það var aldrei of seint að læra eitthvað nýtt. Þetta viðmót hans í lífinu gerði það til dæmis að verkum að við áttum reglulegt vídeóspjall yfir messenger – tækni sem níræðir einstaklingar myndu oftar en ekki veigra sér við. Þetta spjall var mér einstaklega verðmætt þegar fjarlægðin gerði það að verkum að ég gat ekki bara hlaupið upp stíginn í heimsókn í Mýrarveginn.
Elsku afi. Að geta ekki verið heima og fylgt þér til grafar í dag er mér óbærilega erfitt. En ef einhver myndi fullvissa mig um að ég yrði með í anda værir það þú. Ég vildi óska þess að barnið sem ég er gengin 39 vikur með og þinn 48. afkomandi hefði fengið að kynnast þér. En rétt eins og sú dýrmætasta gjöf sem þú hefur gefið mér – að hafa haldið minningu Sollýjar ömmu svo fallega á lífi – mun ég gefa þá gjöf áfram. Ég mun segja barninu mínu frá lífi þínu, ég mun spila fyrir það tónlistina þína, og ég mun kenna því allt það fallega sem þú hefur kennt mér. Eitt er það sem aldrei gleymist, aldrei það er minning þín.
Takk fyrir allt, afi.
Hildur María Hólmarsdóttir Bergmann