Fara í efni
Minningargreinar

Ingibjörg Gústavsdóttir

Ingibjörg Gústavsdóttir, f. 25. sept. 1941 – d. 5. ágúst 2024

Hvítir fuglar

Til þín hurfu síðustuhugsanir mínar.Hvítir fuglarflugu úr búri.

Einhvern tíma seinna mætumst viðá morgunkyrrum staðþar sem sólskinshvítir fuglarsyngja í trjánum.
Tor Jonsson/ þýð. Bragi Sigurjónsson

Ingibjörg Gústavsdóttir, frænka mín, er látin tæpra 83 ára að aldri. Foreldar hennar voru Gústav Elís Berg Jónasson rafyrkjameistari (1911– 1990) og Hlín Jónsdóttir (1911–1973). Ingibjörg átti einn bróður, sem upp komst, Bolla Þóri Gústavsson (1935–2008) lengi prest í Laufási en síðast vígslubiskup á Hólum.

Ingibjörg ólst upp á Eyrinni, gekk í Gagnfræðaskólann og var síðan á Húsmæðraskólanum á Laugum. Hún lauk námi sjúkraliða og starfaði á Fjórðungssjúkrahúsinu, fyrst á Akureyri en lengst í Kristnesi.

Mæður okkar, Helga og Hlín, voru systur, foreldar þeirra voru Jón J. Jónatansson járnsmiður (1874–1938) og Þórunn Friðjónsdóttir (1884–1929), þau bjuggu í Glerárgötu 3 þar sem afi rak verkstæði. Þær voru mjög samrýndar systurnar. Náið samband var milli heimila okkar og samgangur mikill. Ég þekkti því Ingu vel frá barnsaldri þótt samskiptin hafi minnkað eftir að ég flutti burt úr bænum.

Ingibjörg var glaðlynd eins og foreldrar hennar en heldur hlédræg. Hún naut sín best í fámenni með fjölskyldu og vinum. Samt vann hún á fjölmennum vinnustað og kom sér þar vel enda mjög vel verki farin og hugulsöm og ljúf í framkomu. Efast ég ekki um að hún hafi sinnt sjúklingum vel og sýnt þeim umhyggju. Lengi annaðist Ingibjörg foreldra sína í veikindum þeirra af sérstakri alúð og elskusemi. Föður sínum var hún ellistoð í meira en áratug.

Ingibjörg var ekki síður listhneigð en Gústav faðir hennar og Bolli bróðir. Hún sat löngum við hannyrðir í frístundum þótt sjónin fatlaði hana. Hvert listaverkið öðru fallegra kom frá hendi hennar.

Hannyrðaáhugann áttu þær sameiginlegan, móðir mín og Ingibjörg. Þær höfðu því nóg að tala um þegar Ingibjörg kom akandi framan úr Kristnesi með föður sinn í kaffi til Helgu systur eins og Gústav kallaði móður mína. Í þau mörgu skipti sem þau Ingibjörg komu í Bjarkastíg 7 til foreldra minna heilsaði Gústav með orðunum: „Hér er friður“.

Nú hvílir Ingibjörg frænka mín í friði. Einhvern tíma seinna hittumst við þar sem sólskinshvítir fuglar syngja í trjánum eins og þrestirnir sungu í Bjarkastíg forðum og buðu alla velkomna.

Úlfar Bragason

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00