Fara í efni
Minningargreinar

Gísli Jónsson

Við andlátsfregn Gísla Jónssonar varð mér hugsað til baka til tíunda áratugarins en þá reyndist Gísli mikill örlagavaldur í mínu lífi. Hann veitti mér dýrmætt tækifæri þegar hann treysti mér, nýútskrifaðri, fyrir hótelstjórastarfi á Hótel Norðurlandi. Í ráðningarviðtalinu sagði hann að hann hefði reyndar alls ekki verið að leita að ungri konu á barneignaraldri í starfið. Íhaldssamt viðhorf vissulega en hann nefndi hins vegar ekki einu orði að ég væri líka aðkomumanneskja að sunnan, það var ekki vandamál í hans huga. Hann reyndist mér vel á hótelinu, var áhugasamur um að byggja upp ferðaþjónustu á Akureyri og hafði skýra og metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir ferðaþjónustuna nyrðra sem nú er orðin að veruleika.

Gísli og Þórunn voru glæsileg hjón og samhent. Hún drífandi, brosmild og alúðleg og hann var alltaf aðalkallinn, á flugvellinum, ferðaskrifstofunni og happdrættinu. Hann hafði sterkar skoðanir á öllu og öllum, studdi sinn flokk og var vel tengdur bæði innansveitar og utan.

Gísli gaf mér ráð óhikað og ég gat treyst því sem hann sagði. Hann var traustur stuðningsmaður og lagði mér lið oftar en einu sinni á mínum upphafsárum í bæjarmálunum. Eitt sinn var hann mættur við annan mann, eftir morgunsundið, heim til mín með poka úr bakaríinu. Þar var mér lesinn pistilinn. Ég hafði daginn áður gert pólitískt byrjanda axarskaft að þeirra mati en nú reið á að halda ró sinni, leggja á ráðin og skipuleggja mildunaraðgerðir. Eftir fjóra kaffibolla, vínarbrauðslengju og ófá símtöl þá var björgunarpakkinn tilbúinn hjá Gísla. Hann yfirgaf ekki vettvanginn fyrr en verkefninu var lokið og ró komin yfir að nýju. Ég þar með orðin reynslunni ríkari. Þetta var töluvert fyrir tíma samfélagsmiðla en þá voru málin ef til vill oftar leyst á yfirvegaðri hátt.

Þegar litið er til baka þá eru það stundum einstaka tilviljanir sem ráða hvert leið okkar liggur og hverjir verða samferðamenn í gegnum lífið. Tilviljun eða auðna ræður för. Ráðningarviðtalið forðum daga varð að minnsta kosti til þess að líf mitt var samofið Akureyri um rúmlega tveggja áratuga skeið.

Við leiðarlok þakka ég Gísla traustið og stuðninginn og bið guð að blessa minningu hans.

Ég sendi Kolla, Margréti, Jóni Agli og fjölskyldum þeirra, mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigrún Björk Jakobsdóttir

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00