Dagbjört Pálsdóttir
Gleði er eitt af megingildum Heilsuverndar Hjúkrunarheimila. Undanfarna daga hefur þó sorg og söknuður varpað skugga á gleðina.
Ótímabært andlát Dagbjartar hefur haft mikil áhrif á samstarfsfólk hennar sem og íbúa Lögmannshlíðar, sem hún annaðist af kostgæfni og natni.
Við urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að fá Dagbjörtu til starfa sem sjúkraliða í Lögmannshlíð árið 2021. Dagbjört var námfús og naut þess að viða að sér þekkingu til að efla sig sem einstakling og starfsmann og var hún í viðbótarnámi sjúkraliða við Háskólann á Akureyri.
Fjölbreytt reynsla Dagbjartar og þekking hafði jákvæð og góð áhrif inn í starfsemina. Hún lá ekki á skoðunum sínum og var öflugur talsmaður íbúanna. Allt eru þetta eiginleikar sem lýsa sterkum og góðum liðsfélaga sem er með hagsmuni sinna skjólstæðinga að leiðarljósi.
Hæfileikar Dagbjartar lágu einnig í handavinnu þar sem hún prjónaði og heklaði muni sem eru okkur nú enn dýrmætari. Þá höfðu ýmsir á henni matarást þar sem hæfileikar hennar til að töfra fram dýrindis kræsingar leyndu sér ekki. En fyrst og fremst verður hennar minnst vegna notalegrar framkomu og viljans til að mæta þörfum skjólstæðinga sinna.
Við gleðjumst yfir góðum minningum og þannig mun smám saman draga úr skugganum þó sorgin verði vissulega ávallt til staðar.
Með hlýju í hjarta minnumst við Dagbjartar og kveðjum góðan samstarfsmann sem sinnti sínu starfi af alúð og festu.
Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu Dagbjartar.
F.h. Heilsuverndar Hjúkrunarheimila,
Þóra Sif Sigurðardóttir framkvæmdastjóri
Jóhanna Berglind Bjarnadóttir, forstöðumaður á Lögmannshlíð.