Fara í efni
Minningargreinar

Björgvin Þorsteinsson

Árið er 1989 og inn í líf okkar mömmu kemur þú, hávaxinn rólyndismaður, ekki svo framfærinn en með afar notalega nærveru frá fyrstu stundu. Mig minnir að okkar fyrsta samtal hafi verið frekar einfalt, báðir sögðum við hæ og síðan sá mamma um að fylla upp í þögnina. Það leið ekki á löngu áður en þú varst fluttur inn til okkar á Bragagötuna og hægt og rólega fékk ég að kynnast þér og þú mér. Kannski var það ekki svo hægt og rólega sem þú fékkst að kynnast mér, enda var ég níu ára gamall orkubolti.

Þegar við fórum saman til Flórída í fyrsta skipti af mörgum var ég rétt að verða 11 ára og hafði farið í passamyndatöku með mömmu. Þegar við komum til baka og sýndum þér myndina þá sagðir þú: „Þetta er ekki þú, þessi krakki er með lokaðan munninn.“ Akkúrat þetta var húmorinn þinn alla tíð, beinskeyttur og fyndinn, aldrei neinar langlokur.

Við þrjú fluttum saman í Grafarvoginn 1991 og Hesthamrana kalla ég æskuheimilið mitt. Þú kenndir mér að chippa á teppinu áður en allt var parketlagt, láta boltann rúlla rólega að skápnum og hann átti helst ekki að fara í hann og koma til baka. Þetta gerðum við að sjálfsögðu þegar mamma var ekki heima.

Svo kom að því að ég flutti að heiman, „þótt fyrr hefði nú verið“ sagðir þú og hlóst. Á tímabili varstu farinn að kalla mig vatnspung með þínum hárbeitta húmor, þá var ég barnlaus og einhleypur á besta aldri eins og þeir segja. Það breyttist frekar fljótlega þegar ég kynntist Sylvíu, fjögur urðu börnin, ekki svo slæmt. Þegar þú hittir Sylvíu í fyrsta skipti þá buðum við ykkur mömmu í vöfflukaffi í Stigahlíðina. Þú sagðir lítið yfir vöfflukaffinu, hlustaðir á Sylvíu, mig og mömmu spjalla. Á þessum tíma var Sylvía að vinna á sambýli í Garðabæ og þegar þið kvödduð þá sagðir þú: „Takk fyrir mig. Og Sylvía. Mikið er ég feginn að einhver með reynslu af sambýlum taki við honum Kristni okkar.“

Þú barðist hetjulega í sex og hálft ár við grimman andstæðing. Þú tæklaðir þín veikindi með æðruleysi, viljastyrk og húmor. Ást þín á golfinu hjálpaði í veikindunum og iðulega var fyrsta spurningin þín til lækna eftir fjölmargar meðferðir og aðgerðir: „Hvenær get ég spilað aftur golf?“

Samband þitt við afabörnin var einstakt. Þú varst frábær afi og skilur eftir þig tómarúm hjá þeim og okkur sem við munum fylla upp í með minningum af þér. Við elskum þig og söknum þín. Og næst þegar ég er á vellinum og á gott högg þá mun ég sakna þess að heyra í þér fyrir aftan mig: „Hvurn andskotann gerðir þú vitlaust núna?“

Þín alltaf,

Kristinn Geir, Sylvía Rún, Ellert Úlfur, Emil Huginn, Urður Eldey og Agla Eílíf.

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01