Fara í efni
Menning

Hlýddi sýslumanni og söng lagið í þriðja sinn!

Jóhann Konráðsson, Havsteen sýslumaður og Áskell Jónsson í Ásbyrgi.

TÓNDÆMI – 9

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _

Tenórinn Jóhann Konráðsson – Jói Konn – var einn besti og vinsælasti söngvari landsins um árabil. Sagður náttúrubarn í listinni.

Áskell Jónsson, söngstjóri, lýsir Jóhanni í bók Gísla Sigurgeirssonar, Jói Konn og söngvinir hans. Þar segir Áskell: „Það var fyrst og fremst raddfegurðin, þessi sérstaki blær raddarinnar, sem erfitt er að lýsa. Röddin var náttúrleg og spratt fram eins og tær lind. Þar við bættist skapið, þessar miklu tilfinningar sem hann hafði og kórónuðu söngvarann. Jói Konn hefði aldrei getað sungið eins og hann gerði ef hann hefði verið skaplaus maður. En sem betur fer var hann það ekki. Við slíka söngmenn er ekkert annað að gera en láta þá synga. Hjá þeim þarf engu að breyta.“

Jói söng oft Andvarpið, rólegt, ljóðrænt lag sem oft gerði mikla lukku. Honum var einn flutningur þess sérstaklega minnisstæður, þegar hann kom fram ásamt Karlakór Akureyrar í Ásbyrgi.

„Það var stórkostlegt að syngja í Ásbyrgi, sem er ein sú besta „sönghöll“ sem ég hef sungið í. Tóninn er svo lifandi þar. Klettarnir sjá um hljómburðinn,“ segir Jói í bók Gísla.

„Í umrætt skipti vorum við búnir að syngja Andvarpið í tvígang og enn klöppuðu þakklátir áheyrendur lagið upp. Þeir vildu fá að heyra það einu sinni enn. En við vildum ekki láta það eftir þeim, fannst nóg komið, og ætluðum að syngja næsta lag á söngskránni.“

Þá heyrðist kallað:

‒ Ég skipa þér, Jóhann, með lögregluvaldi, að syngja þetta lag einu sinni enn.

„Það var Júlíus Havsteen, sýslumaður þeirra Þingeyinga, sem kallaði, sá mannlegasti sýslumaður sem ég kynntist um ævina. Nú, það dugði ekki annað en gegna yfirvaldinu og Andvarpið var sungið í þriðja skiptið. En hvorki fyrr né síðar söng ég samkvæmt lögregluskipun,“ sagði Jói Konn í bók Gísla Sigurgeirssonar.