Fara í efni
Íþróttir

Þorbergur: „Við erum bara rétt að byrja!“

Þorbergur Ingi ásamt Kristínu Evu, dóttur sinni, fljótlega eftir að hann kom í mark á laugardaginn - lang fyrstur þeirra sem hlupu 55 km. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Þorbergur Ingi Jónsson, sem sigraði af miklu öryggi í 55 km „ultra“ hluta Súlur Vertical fjallahlaupsins á laugardaginn, átti hugmyndina að viðburðinum á sínum tíma og stóð fyrir fyrsta hlaupinu 2016. Síðan hefur það verið haldið árlega, nema hvað aflýsa þurfti hlaupinu í fyrra vegna Covid. Þorbergur Ingi hefur séð „barnið“ vaxa og dafna, er mjög ánægður en segir viðburðinn enn eiga eftir að stækka mikið.

Vont að detta – en það gleymist

Þegar sigurvegarinn kom í mark var hann skrámaður á hægri handlegg og hægra hné. „Ég datt á leið niður Lambáröxlina, lengst inni á Glerárdal. Ferðafélagið er nýbúið að stika þessa leið og undirlagið er laust og varasamt. Maður getur ekki treyst grjótinu, undirlagið er svo laust að maður fær enga festu. Það þarf að fara virkilega varlega og ég passaði mig ekki nógu vel,“ sagði Þorbergur Ingi við Akureyri.net strax eftir að hann hafði lagt kílómetrana 55 að baki. 

Hlauparinn var ekki hálfnaður þegar hann datt og meiddi sig. „Jú, þetta var vont,“ sagði hann aðspurður, „aðallega í puttanum,“ bætir hann svo við og sýnir blaðamanni stokkbólginn fingur. „Ég hélt fyrst að hann væri brotinn en líklega er ekki svo. Ég hleyp ekki með puttanum svo þetta er allt í lagi!“

Skrámunum gleymir maður, segir hlauparinn, en þær rifjuðust hressilega upp þegar Sigurður E. Sigurðsson, læknir, tók sig til og sprittaði handlegginn skömmu eftir að Þorbergur Ingi kom í mark!

Borðaði snjó

„Mér leið rosalega vel til að byrja með, alveg niður að Súlubílastæðinu, en það var lúmskt heitt og ég klikkaði á því að drekka nóg og kældi mig heldur ekki nógu mikið,“ sagði Þorbergur Ingi við Akureyri.net. „Það var steikjandi hiti og þar sem var alveg logn, ekki síst ofan í dældum, var rosalega heitt.“

Hann sagðist hafa fengið krampa í fæturnar á leiðinni upp Hlíðarfjall og þar hefði sér satt að segja liðið mjög illa. „Það var erfitt að komast upp, leiðin er rosalega brött og maður getur ekki hlaupið; í mesta brattanum var þetta bara labb. En um leið og ég fór að rúlla niður gekk betur. Þá borðaði ég dálítinn snjó, kældi mig aðeins, og leið strax betur.“

Þorbergi Inga gekk vel niður að Fallorkustígnum við Glerá en fékk þá aftur krampa. „Ég hafði næga orku,“ segir hann, en líklega var það vökvaskortur sem orsakaði krampann. „Þá voru um 6 kílómetrar eftir, ég stoppaði í eina og hálfa eða tvær mínútur en gat svo lullað áfram; ég reyndi að spara eins mikla orku og ég gat, og gat ekki tekið mikið á því undir lokin.“

Hér er allt til alls

Þorbergur var upphafsmaður að þessu skemmtilega hlaupaævintýri sem fyrr segir. Hann segist nokkrum sinnum hafa farið til franska bæjarins Chamonix í Ölpunum, og tekið þátt í mjög vinsælu og skemmtilegu hlaupi sem kennt er við Mont-Blanc, hæsta fjall Evrópu. „Chamonix er umvafinn fjöllum og stemningin er rosaleg á meðan hlaupið fer fram. Mig langaði að færa þessa stemningu hingað heim,“ segir hann.

Þorbergur telur Súlur Vertical geta orðið alvöru alþjóðlegan viðburð. „Möguleikarnir eru miklir. Við höfum alla innviði á svæðinu; hér eru hótel og sundlaugar, og hér er flugvöllur. Við getum byrjað hlaupið innanbæjar og endum í bænum. Náttúran er mjög falleg og svo eigum við öll þessi rosalega fallegu fjöll!“

Bæjarfjöllin, Súlur og Hlíðarfjall, eru bæði um 1200 metra há, hann nefnir Strýtu, Kistu og Tröllafjall, sem eru frá 1100 til 1400 metrar, og svo er það Kerling, hæsta fjall á Norðurlandi – 1560 metrar.

Mörgum þykir án efa nóg að hlaupa 55 kílómetra, en víða um heim fara þátttakendur miklu lengra, og þróunin verður væntanlega sú hér. „Við eigum örugglega eftir að bjóða upp á lengri vegalengdir,“ segir upphafsmaðurinn.

Hann er, í stuttu máli sagt, mjög ánægður með hvernig hugmyndin hefur þróast og segir að áfram verði að halda vel utan um alla þætti. „Súlur Vertical getur orðið mjög stórt. Þetta er orðið mjög flott hjá okkur, en við eigum eftir að stækka ennþá meira meira og poppa þetta upp. Við erum bara rétt að byrja!“ segir Þorbergur Ingi Jónsson, ofurhlaupari.

Hér er myndasyrpa frá hlaupinu.

„Þetta er bara vont fyrst, og svo versnar það ...“ Sigurður E. Sigurðsson, læknir, hugar að Þorbergi Inga eftir að hann kom í mark á laugardaginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.